Flugfélögin sem fljúga til flestra landa

Tvö af fimm víðförulstu flugfélögum heims leggja leið sína allt árið um kring til Keflavíkurflugvallar en hin hafa ekki ennþá hafið flug hingað.

Mynd: Nils Nedel/Unsplash

Þó Ísland komi fyrir í nýjustu sjónvarpsauglýsingu Turkish Airlines þá hefur flugfélagið aldrei boðið upp á áætlunarflug hingað. Það eru hins vegar ekki mörg Evrópulönd sem þotur félagsins fljúga ekki til enda nær leiðakerfi tyrkneska flugfélagsins til 120 landa. Ekkert annað flugfélag getur státað af öðru eins en Air France kemur næst með 93 lönd og svo Qatar Airways með áttatíu og sex. Þar á eftir koma svo British Airways og Lufthansa með 82 og 81 land á sinni áætlun.

Þau tvö síðarnefndu eru þau einu á topp 5 listanum sem fljúga hingað til lands. British Airways býður upp á áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar frá Heathrow og City flugvelli í London á meðan Lufthansa flýgur til Íslands frá Frankfurt allt árið um kring og frá Munchen á sumrin.