Flugvél með 70 pípara snúið við vegna bilaðs klósetts

Það er ekki alltaf nóg að vera með stóran hóp af fagfólki þegar upp kemur neyðarástand um borð í flugvél.

norwegian vetur
Þotu Norwegian var snúið við enda þótti ekki hægt að fljúga með bilað klósett. Mynd: Norwegian

Á laugardagsmorgun tók á loft frá Óslóarflugvelli þota Norwegian flugfélagsins og var stefnan sett á þýsku borgina Munchen. Um borð voru starfsmenn norska pípulagningafyrirtækisins Rørkjøp sem voru á leið í árlega starfsmannaferð. Utanlandsferðir Rørkjøp hafa hingað til ekki ratað í norska fjölmiðla eða í heimspressuna en ferðin um síðustu helgi gerði það hins vegar. Ástæðan er sú að stuttu eftir flugtak kom í ljós að eitt af klósettunum um borð var bilað og í stað þess að leita til þessara 70 pípulagningamanna um borð þá ákváðu flugmennirnir að snúa til baka til Óslóar.

Var þessi beiðni skilgreind sem nauðlending og þar með þurftu flugmennirnir að fljúga vélinni í hringi til að tæma bensíntankna. Það tók sinn tíma en loks var lent og þá tóku píparar og flugvirkjar Óslóarflugvallar við og náðu þeir að laga klósettið á svipstundu. Þotan komst því aftur í loftið og lentu starfsmenn Rørkjøp í Munchen seinni partinn á laugardag. Nokkrum klukkutímum á eftir áætlun.

Pípararnir 70 tóku víst seinkuninni með bros á vör og sérstaklega hafa þeir gaman að þessu í dag enda er Rørkjøp orðið þekktasta pípulagningafyrirtæki Noregs. Í frétt norska Dagblaðsins er haft eftir einum af pípurunum að þeir hafi verið boðnir og búnir til að laga klósettið um borð. Það hafi hins vegar flækt málið að viðgerðin þurfti að fara fram utan frá og ekki hafi þótt réttlætanlegt að senda einn úr hópnum út í 10 þúsund feta hæð til að losa stífluna.