Grímur gefur ekki kost á sér á ný í formannssætið

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fer fram eftir fimm vikur og á dagskrá verður kosning nýs formanns því Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, ætlar að láta staðar numið eftir að hafa leitt samtökin í fjögur ár.

Grímur Sæmundsen.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur upplýst kjörnefnd og meðstjórnarmenn sína hjá SAF um að hann hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem formaður SAF á næsta aðalfundi samtakanna þann 21.mars n.k.  Aðspurður um ástæðu þessa segir Grímur að hann hafi núna sinnt formannsstarfinu undanfarin fjögur ár sem hafi verið mikill umbrotatími í ferðaþjónustunni og vaxtarskeiðið fordæmalaust í nokkurri atvinnugrein á Íslandi. Það verkefni segir Grímur að hafi verið gefandi og skemmtilegt en um leið mjög tímafrekt og krefjandi þannig að nú telji hann við hæfi að einhver annar stigi fram og tæki við kyndlinum.

„Að mínu mati hefur starfsemi SAF eflst mikið á undanförnum fjórum árum og staða samtakanna er nú sterk sem helsta málsvara og hagsmunagæsluaðila stærstu útflutningsatvinnugreinar landsins. Þennan árangur má ekki síst þakka frábæru starfsfólki á skrifstofu samtakanna. Þess sem velst til forystu á næsta aðalfundi bíða áhugaverð og krefjandi verkefni við að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur og sækja enn fram félagsmönnum SAF til heilla,“ segir Grímur.

Í lok þessa árs verða tuttugu ár liðin frá stofnun Samtaka ferðþjónustunnar en þau eru hagsmunasamtök fyrirtækja í atvinnugreininni og innan þeirra eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki svo og önnur fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu.