Hörpuhótelið eitt af mörgum útibúum Edition sem opna á næstu árum

Forsvarsmenn Edition hótelanna munu hafa nóg að gera við að opna nýja gististaði á næstunni. Einhvern tíma á næsta ári mun svo leið þeirra liggja til Reykjavíkur.

Hörpuhótelið, Marriott Edition, eins og það er kynnt á heimasíðu Carpenter & Company, eigenda byggingarinnar. Skjámynd: Carpenter & Company

Í dag er hægt að bóka gistingu á Edition hótelum í London, New York, Sanya í Suður-Kína og Miami og síðar á þessu ári bætir keðjan við nýjum gististöðum í Bangkok, Bodrum, Abu Dhabi, Shanghai, Hollywood í Los Angeles og í Barcelona. Auk þess opnar annað útibú í New York, nánar tiltekið við Times Square.

Landvinningar Edition, sem er í eigu Marriott hótelfyrirtækisins, stöðvast ekki þar því einnig er ráðgert að opna á næstu árum í  Wuhan, Bali, Dubai, Singapúr og Xiamen og auðvitað í Reykjavík. En fyrirtækið hefur tryggt sér Hörpuhótelið svokallaða með 50 ára leigusamningi.

Framkvæmdum við byggingu hótelsins við Hörpu drógust á langinn enda tók tíma að ganga frá fjármögnun þessa 17 milljarða verkefnis. Ekkert varð því úr upphaflegum áætlunum Edition að opna í Reykjavík nú í vor. Upplýsingafulltrúi Edition, segir í svari við fyrirspurn Túrista, að ennþá sé ekki kominn neinn tímarammi fyrir hugsanlega opnun hótelsins í Reykjavík en hún fari væntanlega fram um mitt næsta ár eða í lok þess.

Það eru íslenska arkitektastofan T.ark sem hannar ytra útlit hótelsins en Roman & Williams í New York sér um allt innanhúss samkvæmt heimasíðu Carpenter & Company sem á fasteignina sjálfa. Edition hótelið verðu 5 stjörnu gististaður með um 250 herbergi auk veitingastaða, veislu- og ráðstefnusala.