Keflavíkurflug frá Akureyri freistar ekki íslensku flugfélaganna

Frá og með vorinu geta Norðlendingar ekki lengur flogið beint frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar og þaðan út í heim. Á sama tíma geta ferðamenn ekki farið norður strax við komuna til landsins.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Undanfarið ár hefur Air Iceland Connect boðið upp á beint flug frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar en það er aðeins opið þeim sem eru á leið í eða úr millilandaflugi. Þessi flugleið verður hins vegar lögð niður í maí enda hefur eftirspurnin ekki reynst nægjanleg. Í kjölfar fréttar Túrista um málið hafði RÚV það eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, að það væru vonbrigði að flugið leggðist af og að næsta skref væri er að leita annarra aðila sem eru tilbúnir í þetta verkefni.

Af svörum forsvarsmanna flugfélaganna Ernis, WOW og Norlandair að dæma þá er ekki líklegt að þeir ætli að taka við keflinu frá Air Iceland Connect. Ásgeir Örn Þorsteinsson hjá flugfélaginu Ernir segir, í svari til Túrista, að engar formlegar viðræður séu um flug milli Akureyrar og Keflavíkur og ekkert í farvatninu að gera slíkt. Málið mun ekki vera til skoðunar hjá WOW air samkvæmt Svanhvíti Friðriksdóttur og Friðrik Adólfson hjá Norlandair segir að þar á bæ sé alltaf áhugi á nýjum leiðum en flugfloti fyrirtækisins henti ekki svona flugi eins og staðan er í dag.

Það stefnir því í að eina innanlandsleiðin frá Keflavíkurflugvelli heyri brátt sögunni til en líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er leit að annarri alþjóðlegri flughöfn sem gerir farþegum ekki kleift að tengja saman millilanda- og innanlandsflug. Þess háttar þjónusta nýtist ekki aðeins heimamönnum heldur líka ferðafólki. Þannig hafði Túristi það eftir forsvarsfólki ferðaþjónustunnar á hinum Norðurlöndunum að þessar flugtengingar væru mjög mikilvægar fyrir atvinnugreinina og þá helst í dreifðari byggðum. En með styrkingu íslensku krónunnar hefur Ísland orðið dýrari áfangastaður og teikn á lofti um að ferðamenn dvelji hér styttri tíma og fari síður út á landi líkt og kom m.a. fram í máli Boga Nils Bogasonar, fjármálastjóra Icelandair Group, á mánudag þegar ársuppgjör fyrirtækisins fyrir 2017 var kynnt.

Til marks um hversu mikil umsvif innanlandsflugsins eru á stærstu flugvöllum Norðurlanda má nefna að í janúar sl. var nærri helmingur farþega á Óslóarflugvelli á leið í innanlandsflug og 3 af hverjum 10 sem nýta sér þær áætlunarferðir eru á leið í eða að koma úr millilandaflugi. Svo hátt yrði hlutfallið ólíklega hér á landi enda Noregur mun stærra land og fjarlægðirnar meiri. En þó gæti markaðurinn verið töluverður ef flugferðirnar væru tíðari og til fleiri áfangastaða. Sem dæmi má nefna að á hefðbundnum febrúardegi koma hingað til lands hátt í 6 þúsund erlendir ferðamenn og ef aðeins 1% þeirra hefði áhuga á að fljúga beint út á land við komuna til landsins þá færi það langt með að fylla stærri gerðina af Bombardier flugvélunum sem Air Iceland Connect notar.

Heimamenn á Akureyri, sem hafa síðastliðið ár getað flogið beint frá Akureyri í morgunsárið og verið komnir til Evrópu um hádegi, verða núna að leggja í hann daginn áður og gista í höfuðborginni til að ná morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli.