Keflavíkurflugvöllur hástökkvarinn í sínum flokki

Hvergi í Evrópu hefur farþegum fjölgað jafn hratt síðustu fimm ár og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

kef farthegar
Í fyrra fóru nærri fjórfalt fleiri um Flugstöð Leifs Eiríkssonar en árið 2012. Mynd: Isavia

Það fóru um 8,8 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll Í fyrra og fjölgaði þeim um 28 prósent sem er meiri vöxtur en á öðrum álíka stórum flughöfnum í Evrópu. Og þegar litið er aftur til ársins 2012 kemur í ljós að Keflavíkurflugvöllur er í algjörum sérflokki í Evrópu því þar hefur farþegafjöldinn nærri fjórfaldast sem er langtum meira en annars staðar.

Vöxturinn í ferðalögum er ekki aðeins bundinn við Ísland því nýliðið ár var metár á evrópskum flugvöllum og fjölgaði farþegunum um 8,5 prósent. Leita þarf 13 ár aftur í tímann til að finna meiri hlutfallslegan vöxt samkvæmt uppgjöri Evrópusamtaka flughafna, ACI Europe. Þar segir jafnframt að aukningin hafi verið mest í austur- og suðurhluta álfunnar. Helsta skýringin á því er sú að farþegaflug í Tyrklandi og Rússlandi hefur verið að rétta úr kútnum eftir niðursveiflu síðustu ára. Einnig hefur það áhrif að íbúar Austur-Evrópu kjósa nú flugsamgöngur í álíka miklum mæli og íbúar í vesturhluta álfunnar.

Mesta aukningin á flugvöllum með 5 til 10 milljónir farþega – árið 2017

  1. Keflavíkurflugvöllur: 28,3%
  2. Napólí: 26,6%
  3. Kænugarður: 22,1%
  4. Malta: 17,5%
  5. Larnaca: 16,5%