Langur biðlisti eftir skíðaferðum

Íslendingar bíða stundum of lengi með að bóka skíðaferðir og komast því ekki á þeim tíma sem þeir helst kysu. Jóhann Pétur Guðjónsson ætlar að ráðast í herferð til að fá fólk til að ganga fyrr frá pöntun á ferðum næsta veturs.

Jóhann Pétur Guðjónsson en hann mælir með að fólk hugi að skíðabúnaðinum nokkru áður en lagt er í hann.

„Ferðirnar okkar til Kitzbühel eru nærri uppseldar og biðlistinn er langur. Af þeim 900 sætum sem voru í boði til Austurríkis eigum við 6 sæti laus í mars. En þá eigum ennþá nokkur sæti eftir til Whistler í Kanada,” segir Jóhann Pétur Guðjónsson, hjá GB-ferðum, sem bjóða meðal annars upp á skíðaferðir til N-Ameríku og Austurríkis. Í vetur hefur ferðaskrifstofan selt 30% fleiri skíðaferðir en í fyrra.

Jóhann segir að sá lærdómur sem megi draga af þessari miklu eftirspurn í vetur vera þann að bóka þurfi tímanlega. „Oft á tíðum er fólk að bíða alltof lengi með ákvörðun um skíðaferð. Ástæðurnar eru eflaust margar, en því lengur sem þú bíður, því minni líkur eru á því að þú fáir sæti og verðin verða hærri. Ekki bara í flugið heldur líka fyrir gistingu og jafnvel skíðapassarnir. Vinsælar dagsetningar seljast líka upp því oftar en ekki eru fleiri en þú að hugsa um skíðafrí á sömu dagsetningum.” Jóhann Pétur bætir því við að ferðaskrifstofan mætti líka vera duglegri við að hvetja fólk til að bóka snemma. „Við ætlum að ráðast í slíka herferð á þessu ári með hvetjandi hætti.”

Skipulagningu skíðaferðarinnar lýkur þó ekki við bókun á ferðalaginu. Jóhann Pétur mælir til að mynda með því að fólk fari í gegnum allan skíðabúnaðinn með góðum fyrirvara. „Oft gleymist eitthvað ef hlutirnir eru teknir til með litlum fyrirvara. Við mælum með að þú byrjir á því að láta bera á skíðin þín og skerpa kantana daginn sem þú kemur út. Mörg hótel bjóða uppá þá þjónustu. Það er ekki bara ánægjulegra að skíða á yfirförnum skíðum heldur er þetta einnig öryggisatriði.”

Margir finna fyrir slappleika þegar komið er upp í skíðasvæðin enda lofið þynnra í svo mikilli hæð en góð leið til að minnka líkurnar á þess háttar er að drekka nóg af vökva í fluginu. „Ofþornun er ein helsta ástæða slappleika þegar komið er í fjallið,” segir Jóhann Pétur. Hann mælist jafnframt til þess að fólk hafi hlý föt með sér í handfarangri því oft er töluvert kaldara á áfangastaðnum en hér heima.