Ódýrara bílastæði á Keflavíkurflugvelli ef bókað á vefnum

Nú er hægt að taka frá bílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þeir sem það gera borga minna en hinir sem borga við hliðið. Um mánaðarmótin hækkar verðið á stæðunum fyrir þá sem hafa ekki tryggt sér stæði.

Hluti af langtímabílastæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar Mynd: Isavia

Gjaldskráin á langtímabílastæðinu við Keflavíkurflugvöll tekur breytingum um næstu mánaðarmót þegar sólarhringsgjaldið hækkar um fimm hundruð krónur og verður 1.750 kr. Hins vegar fá þeir sem bóka stæði fyrir fram á vef Keflavíkurflugvallar nokkru ódýrara stæði samkvæmt lauslegri athugun Túrista. Þannig kostar sólarhringurinn í dag 1.253 krónur ef stæði er pantað í þrjá daga yfir fyrstu helgina í mars og sá sem bókar núna stæði frá skírdegi og fram á annan í páskum greiðir 4.700 krónur fyrir alla dagana. Það er ódýrara en það kostaði um síðustu páska en þá varð uppselt á langtímabílastæðunum við Keflavíkurflugvöll. Þetta nýja bókunarkerfi á að minnka líkurnar á að stæðin fyllist á ný á álagstímum.

Í tilkynningu frá Isavia segir að lægsta sólarhringsverðið í dag sé 940 krónur ef bókað er á netinu en tekið fram að verðið fari eftir eftirspurn á hverjum tíma. „Þannig mun stór hluti farþega sem bóka bílastæði fá betra meðalverð á dag en áður hefur boðist auk þess sem farþegar geta gengið að bílastæðinu vísu,“ segir í tilkynningunni. Þar segir jafnframt að kerfið sé þekkt á flugvöllum víða um heiminn og hefur að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, verið í þróun og innleiðingu hjá Isavia í meira en ár. „Þessi nýja leið mun vonandi verða til þess að Íslendingar nýti sér hana, bæði til að spara og sýna fyrirhyggju þegar kemur að ferðalaginu. Verðið sem viðkomandi fær fer þá eftir framboði og eftirspurn, það er hversu margir hafa bókað á undan á sama tíma. Því gefur augaleið að til að fá bílastæðið á sem bestu kjörum á álagstímum eins og um páska, í sumar og um jól er best að bóka með góðum fyrirvara,“ er haft eftir Hlyni í tilkynningu.

Í farþegaspá Isavia fyrir Keflavíkurflugvöll, sem kynnt var í nóvember síðastliðnum, er spáð töluverðri fjölgun íslenskra farþega sem ferðast um flugvöllinn og er sú spá í takt við þróun síðastliðinna ára. Á miklum álagstímum hefur það atvikast að bílastæðin við flugvöllinn hafa fyllst, en í dag eru langtímastæði 2.400 talsins.