Áfram ódýrara að leigja bíl í útlöndum

Íslendingar sem verða á ferðinni í Evrópu í sumar og vilja hafa bíl til umráða þurfa að borga minna nú en fyrir nokkrum árum síðan. Sérstaklega er leiga hagstæð í júní.

vegur stor
Mynd: Ferðamálaráð Sviss

Verðskrár bílaleiganna við Keflavíkurflugvöll hafa lækkað verulega fyrir sumarið og aðalskýringin á því er líklega aukin samkeppni og mikið framboð á bílaleigubílum. Styrking íslensku krónunnar er hins vegar helsta ástæða þess að Íslendingur sem bókar bílaleigubíl á Spáni, í Frakklandi eða í Danmörku borgar mun minna núna en á sama tíma fyrir 3 árum síðan. Meðalverð á bílaleigubílum við flugvöllinn í Alicante hefur þannig lækkað um helming og lækkunin er líka umtalsverð við Charles de Gaulle í París, Gatwick í London, Kastrup í Kaupmannahöfn, í Genf og í Mílanó. Alls staðar hefur verðið farið lækkandi nema í Stokkhólmi samkvæmt reglulegum könnunum Túrista á bílaleiguverði.

Í samanburði við síðasta sumar þá hefur meðalverðið hækkað í einhverjum tilfellum en eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá er mikill munur á milli mánaða. Þeir sem eru á ferðinni seinni hlutann í júní borga miklu minna en þeir sem fara í júlí eða ágúst. Það á víðast hvar við.

Í verðkönnunum Túrista er fundið við leiguverð á ódýrasta bílaleigubílnum við hverja flugstöð fyrir sig og miðað er við tveggja vikna leigutíma í júní, júlí og ágúst og reiknað út meðalverð á dag. Notast er við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Þannig kostar ódýrasti bílaleigubíllinn á flugvellinum í Alicante, seinni hlutann í júlí, nærri 20 þúsund skv. Rentalcars en ef bókað er beint hjá Hertz er verðið að lágmarki 67 þúsund og 75 þúsund hjá Avis.