Ólík stefna íslensku flugfélaganna í kaupum á eldsneyti

Á sama tíma og flugfargjöld eru hagstæðari en oft áður þá hefur kostnaðurinn við að fljúga flugvélunum aukist. Alla vega þegar kemur að eldsneytinu og á meðan Icelandair ver sig fyrir olíuhækkunum þá gerir WOW það ekki.

Það kostar tvöfalt meira að fylla þotu af bensíni í dag en í hittifyrra. Aftur á móti er það mun ódýrara en fyrir nokkrum árum síðan. Mynd: Aman Bhargava/Unsplash

Kaup á þotueldsneyti vegur þungt í rekstri flugfélaga og samkvæmt spá IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, mun olíukostnaður verða fimmtungur af heildarkostnaði flugfélaga á þessu ári. Það er aðeins hærra hlutfall en á síðasta ári og ástæðan er sú að verð á eldsneyti hefur farið hækkandi síðustu misseri og er núna nærri 30% hærra en það var fyrir ári síðan. Þrátt fyrir þennan aukna kostnað þá hefur farmiðaverð almennt farið lækkandi. Það sést til að mynda í bókunarvélum íslensku flugfélaganna enda hefur samkeppnin aukist verulega á mörgum flugleiðum til og frá Keflavíkurflugvelli en líka á milli Evrópu og N-Ameríku en bæði Icelandair og WOW air eru umsvifamikil í flugi yfir hafið.

Þrátt fyrir hækkandi olíuverð þá spáir IATA því að góð afkoma verði af flugrekstri í ár líkt og undanfarin ár en hagnaður flugfélaganna sveiflast þó í takt við olíuverðið þar sem það er stór hluti af kostnaðinum. Til að draga úr þessum sveiflum þá gera forsvarsmenn fjölda flugfélaga samninga um kaup á eldsneyti á ákveðnu verði fram í tímann. Þannig er komið í veg fyrir að umtalsverðar verðhækkanir á olíu hafi mikil áhrif á reksturinn með stuttum fyrirvara. Þess háttar samningar geta hins vegar verið óhagstæðir ef eldsneyti lækkar mikið í framhaldinu líkt og gerðist árin 2015 og 2016.

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir í svari til Túrista að flugfélagið sé ekki með neinar olíuvarnir. Staðan hjá Icelandair er önnur því í svari Guðjóns Arngrímssonar, talsmanns félagsins, segir að 54% af eldsneytiskaupum Icelandair Group séu varin til 12 mánaða og 8% varin til 13 til 18 mánaða. Ef flugfélögin tvö halda sig við þessa stefnu og olíuverð lækkar má gera ráð fyrir að WOW græði á þeirri þróun og að kostnaður Icelandair af því að tryggja sig fyrir verðsveiflum verði töluverður. Aftur á móti ætti staðan að snúast við ef olíuverð fer hækkandi líkt og spá IATA gerir ráð fyrir. Óumflýjanlegt er þó að taka inn í myndina þá staðreynd að flugfloti WOW air er mun yngri og nýjar þotur eyða minna en þær eldri. Flugflotar íslensku flugfélaganna beggja munu svo stækka í ár og eru viðbæturnar allt nýjar þotur.

Tunna af flugvélabensíni kostar í dag um 85 dollara en var í kringum 140 dollara áður en lækkunin mikla hófst í ársbyrjun 2015. Lægst var verðið fyrir 2 árum eða um 40 dollarar sem er ríflega helmingi lægra verð en í dag.