Óvissa um þróun fargjalda í millilandafluginu

Forstjóri Icelandair Group segir vöxt félagsins á síðasta ári hafa verið arðbæran og að bókunarstöðuna sé góð á fyrri helmingi ársins. Hins vegar endurspegli afkomuspáin óvissu á markaðnum. Hlutfall íslenskra tekna hefur dregist saman milli ára.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Hagnaður af rekstri Icelandair Group á síðasta ári nam 3,9 milljörðum króna en fyrirtækið tapaði rétt rúmlega þeirri upphæð, eða 4,1 milljarði, á síðasta ársfjórðungi ársins samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í lok föstudags. Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni forstjóra að afkoma ársins hafi verið í takt við seinustu afkomuspá fyrirtækisins. „Arðbær vöxtur félagsins heldur áfram og sterk fjárhagsstaða og sveigjanleiki gera okkur kleift að bregðast við aðstæðum og grípa ný og spennandi tækifæri á markaði. Icelandair flutti rúmlega fjórar milljónir farþega í millilandaflugi á árinu og hafa þeir aldrei verið fleiri.“

Björgólfur bætir því við að samkeppni sé mikil á öllum mörkuðum. „Bókunarstaða í millilandaflugi er góð á fyrri árshelmingi en töluverð óvissa er á síðari hluta ársins, einkum hvað varðar þróun meðalfargjalda. Afkomuspá félagsins fyrir árið 2018 endurspeglar þessa óvissu en gert er ráð fyrir að EBITDA ársins verði 170-190 milljónir USD,“ segir Björgólfur í tilkynningu.

Af uppgjöri Icelandair fyrir 2017 má sjá að farþegatekjur Icelandair jukust um rúm 8% frá því í hittifyrra en til samanburðar fjölgaði farþegum í millilandaflugi um 10%. Það segir þó ekki alla söguna því farmiðasala í innanlandsflugi og leiguflugi eru líklega hluti heildartölunni. Upplýsingar um þróun fargjalda hjá Icelandair koma ekki skýrt fram í uppgjörinu en til að mynda er hægt að nálgast þess háttar gögn í uppgjöri flugfélagsins SAS. Þar lækkuðu tekjurnar á hvern farþega um 3% fram í lok október í fyrra.

Lækkun á meðalfargjöldum um örfá prósentustig hefur töluverð áhrif á tekjur flugfélaga, til dæmis lækka tekjur Icelandair um 1,6 milljarða ef flugfélagið flýgur með álíka marga í ár og í fyrra um leið og meðalfargjaldið lækkar um 400 krónur. Tekjutapið yrði þá 4 milljarðar ef farmiðinn lækkar um eitt þúsund krónur að jafnaði. Á móti kemur að eftirspurn gæti aukist í takt við lækkandi fargjöld.

Í uppgjöri Icelandair kemur jafnframt fram að vægi Íslands í rekstri Icelandair Group hefur dregist saman þegar litið er til tekna. Árið 2016 kom fjórðungur tekna fyrirtækisins frá Íslandi en hlutfallið fór niður í 22% í fyrra. Bandaríkjamarkaður vegur langþyngst og hefur vægi hans aukist úr 37% í 39% milli ára.