Primera Air stokkar upp Ameríkuflugið frá Englandi

Flugfélag Andra Más Ingólfssonar eykur framboð sitt á flugi til stórborga á austurströnd N-Ameríku frá Stansted flugvelli í London.

washington yfir
Washington DC verður einn af áfangstöðum Primera Air. Mynd: Visit Washington

Breytingar á leiðakerfi Primera Air hafa verið til umræðu í bresku pressunni síðustu daga og er þá jafnan talað um flugfélagið sem letneskt lággjaldaflugfélag. En Primera Air flutti starfsstöð sína frá Reykjavík til Riga fyrir nokkrum árum síðan en er engu að síður í eigu Andra Más Ingólfssonar. Og það er hann sem hefur skýrt það út fyrir breskum ferðablaðamönnum afhverju Primera Air hefur hætt við flug frá Birmingham til Boston og þess í stað aukið umsvif sín á Stansted flugvelli. En þaðan hyggst félagið fljúga til Washington Dulles flugvallar frá og með byrjun júní. Á sama tíma hefur ferðunum til Toronto verið fjölgað en ferðunum til þessarar fjölmennstu borgar Kanada frá Birmingham var einmitt fækkað.

Primera Air opnar líka brátt starfstöð á Charles de Gaulle flugvelli í París og þaðan verður flogið til New York, Boston og Toronto frá og með apríl.

Primera Travel Group hyggst einnig opna ferðaskrifstofu í Bretlandi en hingað til hefur félagið fókusað á Norðurlöndin með þess háttar starfsemi en Heimsferðir eru einmitt hluti af samsteypunni.