Reykvísk hótel vel bókuð um helgina

Það stefnir í að flest hótelherbergi í höfuðborginni verði skipuð um helgina.

reykjavik Tim Wright
Mynd: Tim Wright

Febrúar er sá mánuður sem flestir Bretar heimsækja Ísland og miðað við bókunarstöðuna á hótelum höfuðborgarinnar á Booking.com þá eru ekki mörg herbergi á lausu. Á vef bókunarfyrirtækisins segir að 93% allra gistikosta, frá fimmtudegi til sunnudags, séu uppbókaðir. Á sama tíma í fyrra var hlutfallið aðeins hærra eða 96% samkvæmt athugun Túrista. Ef leitað er af gistingu í höfuðborgum hinna Norðurlanda er úrvalið af lausum herbergjum það mikð að Booking.com gefur ekki upp hlutfall bókaðra gistinga. Sömu sögu er að segja um stöðuna í New York og París en í London mun 77% af því gistirými sem Booking.com er með til ráðstöfunar vera bókað.

Hafa ber í huga að þó Booking.com sé eitt umsvifamesta hótelbókunarfyrirtæki í heimi þá gefur bókunarstaðan á vefsíðunni ekki fullkomna mynd af gistimarkaðnum í hverri borg fyrir sig. Í því samhengi má benda á að hjá Hotels.com, öðru stóru hótelbókunarfyrirtæki, er hlutfall lausrar gistingar í Reykjavík um helgina hærra en hjá Booking.com eða 17%.

Hjá HotelTonight, sem sérhæfir sig í hótelgistingu með stuttum fyrirvara var ekkert laust í Reykjavík síðustu helgina í febrúar í fyrra í athugun Túrista fyrir ári síðan. Núna hefur fyrirtækið á boðstólum nokkrar gistingar um helgina en líkt og fram hefur komið hefur íslenski gistimarkaðurinn verið í forgangi hjá Hotel Tonight og fyrirtækið hefur nú úr fleiri herbergjum að moða hér á landi.