Þórir ætlar í formanninn og Bjarnheiður íhugar líka framboð

Það gæti farið svo að forsvarsfólk aðildarfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar þurfi að kjósa á milli frambjóðenda í embætti formanns samtakanna.

Þórir Garðarsson gefur kost á sér til formanns SAF en Bjarnheiður íhugar framboð. Myndir: Iceland.is og aðsendar

Undanfarin fjögur ár hefur Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, farið fyrir Samtökum ferðaþjónustunnar en hann hyggst ekki bjóða sig fram að nýju líkt og Túristi greindi frá í gær. Í framhaldinu tilkynnti Þórir Garðarsson, forstjóri Gray Line, sem verið hefur varaformaður SAF síðustu þrjú ár,  að hann hafi ákveðið að gefa kost á sér í kjöri til formanns. Í færslu á Facebook segir Þórir að hann hafi mikinn hug á því að vinna áfram að hagsmunamálum atvinnugreinarinnar og að hann hafi í störfum sínum fyrir samtökin í gegnum tíðina fengið hvatningu og þakklæti frá félagsmönnum og það hafi því ekki komið á óvart að margir félagsmenn hafi haft samband við sig í framhaldi af tilkynningu Gríms. „Að vel yfirlögðu ráði hef ég ákveðið að gefa kost á mér í kjöri til formanns SAF, ekki aðeins vegna mikillar hvatningar, heldur ekki síður vegna þess að ég hef mikinn hug á því að vinna áfram að hagsmunamálum þessarar stærstu atvinnugreinar landsins,“ segir Þórir.

Hann bætir því við að það hafi jafnframt haft áhrif á ákvörðun sína að hann telji ekki gott fyrir framvindu viðfangsefna SAF að formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri hverfi öll á braut á sama tíma. Vísar Þórir þar til þess að Helga Árnadóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri samtakanna síðustu fjögur ár, tekur í sumarbyrjun við starfi sem framkvæmdastjóri Blue Lagoon Journeys ehf, dótturfélags Bláa Lónsins.

Aðspurður um hvort hann eigi von á fleiri frambjóðendum til formanns þá segir Þórir, í svari til Túrista, að hann geri alveg ráð fyrir því að fleiri gefi kost á sér í kosningu formanns. „Samtök ferðaþjónustunnar eru stór samtök með mikinn fjölda félagsmanna sem margir hverjir eru öflugir og hæfileikaríkir einstaklingar. Nú er það í þeirra höndum að taka ákvörðun um að gefa kost á sér í þetta mikilvæga embætti telji þeir sig geta sinnt verkefninu betur en aðrir.“

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Katla Travel, staðfestir í svari til Túrista að hún sé alvarlega að að velta því fyrir sér að bjóða sig fram til formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. En kosning til stjórnar SAF fer fram á aðalfundi samtakanna þann 21. mars nk. og rennur framboðsfrestur til stjórnar út tveimur vikum fyrr.