Samkeppniseftirlitið rannsakar gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli

Í kjölfar kæru Gray Line þarf Isavia að afhenda öll gögn í tengslum við ákvörðun um að hækka gjöld á rútustæðum við komuhlið Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

airportexpress
Rúta á vegum Gray Line við Flugstöð Leifs Eiríkssonar Mynd: Gray Line

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt Isavia að rannsókn sé hafin á gjaldtöku af hópferðabílum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli en Gray Line kærði þessi áform Isavia þann 10. janúar síðastliðinn. Í bréfi sem stofnunin hefur sent Isavia segir að það sé ljóst af frummati sínu að fyrirhuguð gjaldataka Isavia á hópferðafyrirtæki muni að óbreyttu leiða til mikillar verðhækkunar á farþegaflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli. Af þeirri ástæðu og vegna forsögu málsins hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka kæru Gray Line til meðferðar og hefja rannsókn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gray Line.

Isavia fær frest til 16. febrúar til að skýra sjónarmið sín og skila upplýsingum um áformin en hin nýja gjaldtaka á rútustæðunum hefst um næstu mánaðarmót en tilkynnt var um hana í byrjun desember. Í kjölfarið mun kosta 7.900 krónur að keyra minni hópferðabíla inn á stæðið en 19.900 fyrir hefðbundnar rútur. Samkeppniseftirlitið óskar eftir öllum upplýsingum og gögnum sem Isavia býr yfir sem varða undirbúning og ákvarðanir um útboð á aðstöðu upp við flugstöðina, gjaldtöku á stæðum fyrir hópbifreiðar og vegna ákvörðunar um að undanskilja Strætó bs. frá gjaldtöku. Fer eftirlitið fram á að Isavia afhendi alla tölvupósta, minnisblöð, útreikninga og Excelskjöl, fundargerðir, samskipti við aðila á markaði og opinbera aðila í tengslum við hið nýja rútugjald.

Sem fyrr segir er það ætlun stjórnenda Keflavíkurflugvallar að hefja gjaldtöku á rútustæðinu þann 1. mars en í bréfi Samkeppniseftirlitsins segir að því sé heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða ef sennilegt þykir að viðkomandi háttsemi fari gegn ákvæðum samkeppnislaga og raski samkeppni. Fyrir liggur, segir í bréfinu, að atvinnustarfsemi tengd flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli geti haft verulega sérstöðu í samkeppnislegu tilliti, sem geti falið sér rök fyrir hraðari málsmeðferð heldur en ella. Óskað er eftir sjónarmiðum Isavia til bráðabirgðaákvörðunar og spurt hvort til álita komi af hálfu ríkisfyrirtækisins að fresta gjaldtökunni meðan rannsóknin stendur yfir.

Bent hefur verið á að hið boðaða gjald á rútustæðinu við Leifsstöð er margfalt hærra en þekkist annars staðar. Þess ber þó að geta að viðkomandi bílastæði er ekki beint fyrir framan komusal flugstöðvarinnar en útboð á þeim stæðum fór fram síðastliðið sumar. Niðurstaðan af því varð sú að tekjur Isavia af aðstöðunni munu hækka verulega og munu fargjöld með félögunum tveimur sem buðu best verða nokkru hærri en tíðkast hefur líkt og Túristi hefur fjallað um.