Sérstakt app til að bóka sólbekki við sundlaugina

Þeir sem vilja sleppa við kapphlaup um sólbekki geta nú nýtt sér nýja tækni en það er ekki ókeypis.

Eitt af hótelum Spies. Mynd: Spies

Hún er á margan hátt furðuleg sú hefð sem skapast hefur í sólarlandaferðum Evrópubúa að rjúka út í morgunsárið til að leggja handklæði á sólstóla. Það hefur líka sýnt sig að þetta veldur pirringi hjá mörgum og hafa hótelstjórar og ferðaskrifstofur reynt að koma í veg fyrir að fólk hafi frátekna sólstóla í lengri tíma jafnvel þó það nýti þá aðeins stundarkorn. Sumstaðar eru handklæði fjarlægð af bekkjum af ónýttum bekkjum en það er hægara sagt en gert að halda uppi svo ströngu eftirliti.

Forsvarmenn ferðaskrifstofunnar Spies í Danmörku hafa einnig leitað nýrra leiða og í haust hófu þeir að bjóða viðskiptavinum sínum að bóka sólstóla áður en lagt var í hann. Þessi nýbreytni fékk það góðar viðtökur að nú hefur sænska ferðaskrifstofan kynnt til sögunnar nýtt app sem gefur ferðalöngunum kost á því að taka frá stóla, dag frá degi, í gegnum símann sinn. Spretthlaup út að sundlaug við fyrsta hanagal ætti því að heyra sögunni til. Alla vega á þessum hótelum sem þessi nýja þjónusta er í boði.

Í fréttatilkynningu frá Spies kemur fram að sex dögum fyrir brottför fá viðskiptavinirnir tölvupóst með korti af sundlaugargarði viðkomandi hótels og hvernig sólin skín á hina mismunandi hluta garðsins eftir dagspörtum. Niðurstöður kannana Spies hafa sýnt að fjórir af hverjum 10 Dönum kjósa helst bekki með útsýni út á hafið en þó nærri sundlauginni. Aðeins 17 prósent vilja liggja í skugga undir tré.

Það verður þó ekki hægt að panta alla stólana í garðinum í gegnum appið því aðeins um fimmtungi þeirra verður ráðstafað með þessum hætti og kostar bókunin um 3.100 íslenskar krónur. Þeir sem vilja heldur taka frá stóla með gamla laginu borga ekkert fyrir það.

Hið nýja sólbekkjaapp Spies.