Taka tvö hjá Tómasi

Engilbert Hafsteinsson lætur af störfum hjá WOW air eftir fimm ár en við verkefnum hans tekur Tómas Ingason sem átti sæti í framkvæmdastjórn félagsins um nokkurra mánaða skeið árið 2014.

Tómas Ingason kemur á ný til starfa hjá WOW air. Aðsendar myndir

Tómas Ingason er nýr framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW air en undir það heyra sala, markaðssetning, þjónusta og tekjustýring flugfélagsins. Engilbert Hafsteinsson sem verið hefur framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs flugfélagsins hefur látið af störfum en þangað réði hann sig í ágúst 2013. Hálfu ári síðar hóf Tómas störf hjá WOW en stoppaði stutt og þetta er því í annað sinn sem hann kemur til starfa hjá lággjaldaflugfélaginu.

Á árunum 2011 til 2013 starfaði Tómas sem stjórnunarráðgjafi hjá Bain & Company í Kaupmannahöfn en áður leiddi hann tekjustýringu og verðlagningu hjá Icelandair samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá WOW air. Þar er haft eftir Skúli Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, að reynsla Tómasar muni nýtast WOW air í hröðum vexti fyrirtækisins. Skúli þakkar Engilbert jafnframt fyrir sín störf. „Engilbert hefur verið lykilstarfsmaður í uppbyggingu félagsins og leiddi meðal annars alla vöruþróun tegnda sölu og innleiddi hliðartekjur WOW air.“