Þegar enginn treysti sér til að reka hótel fékkst á hálfvirði

Það munaði ekki miklu að höfuðstöðvar Íslandsbanka hefðu endað þar sem Grand Hótel stendur í dag.

Úr auglýsingu Holiday Inn sem birtist í Vikunni árið 1987. Skjámynd af Tímarit.is

Það þótti tíðindum sæta þegar Holiday Inn opnaði í Reykjavík fyrir um þrjátíu árum síðan enda var opnun stórra hótel í höfuðborginni fátíð í þá daga. Og sérstaklega gististaða sem voru hluti af erlendum hótelkeðjum. Rekstur Holiday Inn við Laugardal gekk hins vegar ekki sem skildi og endaði í höndum Íslandsbanka nokkrum árum síðar en forsvarsmenn hans höfðu hins vegar engan áhuga á að halda hótelinu gangandi og höfðu uppi áform um að nýta húsnæðið undir höfuðstöðvar bankans.

Í október 1994, þegar stutt var í boðaða lokun Holiday Inn, birti Morgunpósturinn frétt þar sem haft var eftir Vali Valssyni, bankastjóra Íslandsbanka, að tíminn væri að renna út fyrir þá sem hefðu hug á að reka áfram hótel í byggingunni við Sigtún 38. Í fréttinni kom fram að Flugleiðamenn hefðu sýnt Holiday Inn áhuga en 400 milljón króna tilboð þeirra þótti of lágt. Bankinn vildi að lágmarki fá hálfan milljarð fyrir hótelið enda hafði byggingakostnaður þess verið um einn milljarður. „Það hlýtur hins vegar að vera mikið áhyggjuefni fyrir þá sem standa að ferðaiðnaðinum að enginn skuli treysta sér til að reka hótel sem fæst á hálfvirði,” sagði Valur vegna stöðunna sem upp var kominn þegar stutt var í lokun hótelsins.

Í framhaldinu fór af stað nokkurra mánaða viðræður sem enduðu með því að bankinn lét hótelbygginguna í skiptum fyrir Sambandshúsið við Kirkjusand þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka opnuðu síðar.

Hótelbyggingin við Sigtún var tekin í notkun á ný eftir endurbætur vorið 1995 og þá undir heitinu Grand Hótel. Það hótel hefur verið þar allar götur síðan en húsakostirnir þó verið stækkaðir verulega á þeim 23 árum sem liðin eru frá opnun þess.

Skjámynd af frétt Morgunpóstsins 10. október 1994. Tímarit.is

Þess ber að geta að frétt um lítinn áhuga á Holiday Inn hótelinu birtist á Twittersíðunni Slembitímarit í síðustu viku og er það kveikja þessarar upprifjunnar.