Þriðjungi fleiri farþegar um Akureyrarflugvöll

Að jafnaði fóru 547 farþegar á dag um flugstöðina á Akureyri sem er nokkru meira en á sama tíma í fyrra.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra klipptu á borða þegar fyrsti hópur Super Break lenti á Akureyri þann 13. janúar sl. MYND: MARKAÐSSTOFA NORÐURLANDS

Um langt skeið hefur Grænlandsflug Norlandair verið eina reglulega millilandaflugið á dagskrá Akureyrarflugvallar. Nú í ársbyrjun bættust svo við ferðir norður frá Bretlandi á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break og það munar um minna því farþegum á Akureyrarflugvelli fjölgaði úr 12.739 í 16.970 í janúar. Keflavíkurflug Air Iceland Connect vegur líklega einnig þungt enda var það ekki á dagskrá í janúar í fyrra en flugfélagið býður upp á nær daglegar ferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar.

Aukningin á Akureyrarflugvelli í janúar nemur þriðjungi sem er miklu meiri viðbót en verið hefur um langt skeið og eins er þetta í fyrsta skipti í  háa herrans tíð sem sem Keflavíkurflugvöllur er ekki sú íslenska flughöfn með hlutfallslega mesta vöxtinn. Þar fjölgaði farþegum hins vegar um 15,3% í janúar eða ríflega helmingi minna en á Akureyri.

Um Reykjavíkurflugvöll, stærsta innanlandsflugvöllinn, fóru um fimmtán hundruð fleiri farþegar í janúar en á sama tíma í fyrra. Aukningin í hefðbundnu innanlandsflugi frá Reykjavík til Akureyrar skýrir því sennilega ekki stóran hluta af þessum vexti á Akureyrarflugvelli í janúar.