Tvöfalt fleiri matsölustöðum lokað

Samkeppnin í veitingageiranum í Danmörku er mikil og það hefur neikvæð áhrif á reksturinn hjá mörgum.

Brú Louise drottningar við Nørrebro í Kaupmannahöfn. Mynd: Martin Heimberg/Wonderful Copenhagen Mynd: Martin Heiberg/Wonderful Copenhagen

Í fyrra var 237 veitingastöðum í Kaupmannahöfn lokað vegna rekstrarörðugleika og hefur fjöldinn aukist um 90% frá árinu 2015. Megin ástæðan fyrir þessari þróun er sú að samkeppnin hefur aukist verulega og bendir framkvæmdastjóri samtaka hótel- og veitingahúsa í Danmörku á að í Kaupmannahöfn hafi matsölustöðum fjölgað um 15% síðustu fimm ár. Gjaldþrotin skrifast líka á reynsluleysi rekstraraðilanna að mati framkvæmdastjóra samtakanna samkvæmt frétt Standby.dk.

Undir þetta tekur Torben Klitbo sem rekur 16 matsölustaði í Kaupmannahöfn. Hann segir að margir fari út veitingarekstur með rangar væntingar og þegar peningarnir streymi úr kassanum þá sé ekki nóg að vera bara góður kokkur.

Á landsvísu þá urðu 409 dönsk veitingahús gjaldþrota í fyrra og rétt um 60% þeirra voru í Kaupmannahöfn.