Veita aðlögunartíma að gjaldtöku

Fram til 1. september verður gjaldskrá rútubílastæðanna við komuhlið Leifsstöðvar lægri en boðað hafði verið.

Mynd: Isavia

Í lok síðasta árs var tilkynnt að frá og með 1. mars yrði að greiða sérstakt gjald fyrir aðgang að rútustæðinu sem er við komusal Leifsstöðvar. Hæsta gjaldið átti að vera 19.900 krónur fyrir hefðbundnar rútur en 7.900 kr. fyrir minni bíla. Samkvæmt tilkynningu frá Isavia þá hafa borist ábendingar síðan gjaldtakan var kynnt, meðal annars frá aðilum í ferðaþjónustu, um að gjaldflokk hafi vantað fyrir millistærð af hópferðabifreiðum. „Til að koma til móts við athugasemdir ferðaþjónustuaðila hefur Isavia bætt við millistærðarflokki sem tekur til hópferðabifreiða sem taka 20-45 farþega. Auk þess verður gjaldið lægra fyrstu sex mánuðina til að veita ferðaþjónustuaðilum möguleika að aðlaga sig að breyttu fyrirkomulagi,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að frá 1. mars til 31. ágúst 2018 greiðir hópferðabifreið sem tekur allt að 19 farþega 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina, 20-45 farþega bifreið greiðir 8.900 krónur og bifreið sem tekur 46 farþega eða fleiri greiðir 12.900 krónur. Frá 1. september 2018 greiða minnstu bifreiðarnar 4.900, millistærð 12.500 og stærstu 19.900 krónur. Ekkert gjald er tekið fyrir að skila farþegum í flugstöðina.

Þess ber að geta að þessi gjaldtaka á rútustæðinu er nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.