137 viðbótarferðir til Íslands

Stærsta flugfélag Þýskalands sér tækifæri í auknu Íslandsflugi á sama tíma og framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands hefur dregist saman.

Hið nýja útlit Lufthansa. Guli liturinn úr merki félagsins heyrir nú sögunni til. Mynd: Lufthansa

Um langt skeið hefur Lufthansa boðið upp á áætlunarflug til Íslands en lengi vel takmarkaðist það við næturflug yfir sumarmánuðina. Í fyrra hóf flugfélagið að fljúga til Íslands allt árið um kring frá Frankfurt en áfram eru ferðirnar til Munchen bundnar við aðalferðamannatímabilið. Í sumar bætir félagið hins vegar við fjölda brottfara frá þessum tveimur stærstu flugvöllum Þýskalands og í heildina verða viðbótarferðirnar 137 frá maí og fram í október.

„Lufthansa heldur áfram að vaxa á Íslandi í takt við að bjóðum sífellt fleiri farþega velkomna í ferðir okkar til og frá Keflavíkurflugvelli. Á síðasta ári hófum við að bjóða upp á beinar tengingar frá Frankfurt til Íslands allt árið um kring og núna, þegar sumarið er innan seilingar, gerum við ráð fyrir meiri eftirspurn og þar með aukum við framboð okkar frá Frankfurt og Munhen um 62 prósent. Við erum mjög ánægð með þennan vöxt og sérstaklega að gefa Íslendingum kost á því að fljúga beint á tvo helstu flugvelli Evrópu og þaðan lengra út í heim,” segir Andreas Köster, svæðisstjóri Lufthansa á Bretlandi, Írlandi og Íslandi.

Á sama tíma og Lufthansa bætir í flugið til Keflavíkurflugvallar þá hefur orðið samdráttur á flugi milli Íslands og Þýskalands. Vegur þar þyngst brotthvarf Airberlin sem varð gjaldþrota í vetur en einnig munar um að Eurowings, dótturfélag Lufthansa, hefur fækkað ferðum hingað og eins fækkar ferðum Icelandair til meginlands Evrópu í sumar þar sem félagið hefur lagt niður allt næturflug frá Íslandi.