42 þúsund matargestir á biðlista

Hin nýja Noma opnaði nýverið og eins og við var búist voru móttökurnar ævintýralegar.

Hin nýja Noma, Rene Redzepi og tveir af réttum hússins; sá efri eru sjávarsniglar frá Færeyjum og sá neðri er fyllt norks krabbakló með hrognum. Myndir: Noma

Fyrir fimmtán árum síðan opnaði veitingahúsið Noma í Norðuratlantshafshúsinu í Kaupmannahöfn en sendiráð Íslands er einmitt í hinum enda þessa gamla pakkahús við Kristjánshöfn. Hin óvenjulegu efnistök matreiðslumeistara staðarins, Rene Redzepi, fóru fljótlega að spyrjast út enda voru Danir og fleiri óvanir því sjá glæsilegar útgáfur af hversdagslegum dönskum mat á borðum á fínum veitingahúsum en það sem vakti kannski mestu athyglina var hvernig Redzepi náði að búa til lostæti úr norrænu hráefni. Michelin stjörnurnar komu svo og alls kyns aðrar alþjóðlegar viðurkenningar og biðlistinn eftir borði á Noma var langur.

En Redzepi vildi prófa eitthvað nýtt og lokaði Noma í núverandi mynd í hittifyrra. En eftir að hafa ferðast um heiminn og boðið upp á Noma mat hér og þar þá lá leiðin á ný til Kaupmannahafnar. Og nú hefur Noma opnað á ný, skammt frá Kristjaníu, í húsi sem hannað var að danska stjörnuarkitektinum Bjarke Ingels. Á staðnum eru sæti fyrir 56 gesti en nú þegar eru 42 þúsund manns á listanum, það reynir því á þolinmæðina.

Hér fyrir neðan er ljómandi myndband frá hinu norska Dagblaði um hina nýju Noma: