Áhersla á friðlýst svæði og fjölgun áfangastaða

2,8 milljörðum veitt úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Svæðin sem hlutu styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Kort frá Ferðamálastofu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun á ríflega 2,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum. Annars vegar er um að ræða 722 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018 og hins vegar tæplega 2,1 milljarða króna úthlutun vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018-2020 samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Ferðamálastofu.

Þar segir jafnframt að þetta sé í fyrsta sinn sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir ekki ferðamannastaði í eigu ríkisins og er það í samræmi við breytta löggjöf um sjóðinn. Alls hljóta 56 staðir styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sérstök áhersla er lögð á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna til að stuðla að því að álag minnki á fjölsóttum stöðum og lýtur 21 verkefni að þessu markmiði.

Hér má skoða Íslandskort með styrkveitingumog lista og samantekt yfir verkefnin sem fengu styrki.