Lán til samgöngufyrirtækja fjórfölduðust

Útlán Arion banka til ferðaþjónustunnar hækkuðu um 18 milljarða í fyrra og þar af flokkast 11 milljarðar sem lán til samgangna. Aukningin í þeim flokki var langmest á síðasta ári.

island vegur ferdinand stohr
6 af hverjum 10 krónum sem Arion banki lánaði til ferðaþjónustfyrirtækja á síðasta ári runnu í samgönguflokk. Honum tilheyra m.a. bílaleigur, flugfélög og hópferðafyrirtæki. Mynd: Ferdinand Stöhr/Unsplash

Af þeim 765 milljörðum sem Arion banki átti útistandandi í lánum til viðskiptavina sinna í lok síðasta árs þá voru 7% þeirra tengd ferðaþjónustu. Hlutfallið var 5% í árslok 2016 og lán bankans til atvinnugreinarinnar hækkuðu því um 18 milljarða í fyrra. Fóru úr 35,6 milljörðum upp í 53,6 milljarða samkvæmt því sem lesa má úr árskýrslu bankans fyrir árið 2017 sem birt var fyrir helgi. Lán til ferðaþjónustunnar skiptast á milli nokkurra atvinnuvegaflokka í ársskýrslunni í samræmi við flokkunarkerfi Seðlabanka Íslands.

Þar hefur heild- og smásöluverslun mesta vægið því 34% af lánum Arion til ferðageirans teljast til þess hlutar eða 18,2 milljarðar eins og staðan var um síðustu árslok. Næsthæst voru lánin til samgönguhluta ferðamála en athygli vekur að lánin í þennan flokk fjórfölduðust á síðasta ári, fóru úr tæpum 3,6 milljörðum í 14,5 milljarða. Þar með jókst vægi samgöngumála, í lánum tengdum ferðaþjónustu, úr 10% í 27% á milli ára eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Viðbótarlánin á síðasta ári, sem rekja má til samgönguhlutans, námu því um 11 milljörðum en samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar, sem Arion banki styðst við, þá gætu lánin hafa farið til bílaleiga, flugfélaga, hópferðafyrirtækja auk annars konar fyrirtækja sem tengjast á einhvern hátt samgöngum innan ferðaþjónustu. Ekki fást hins vegar nákvæmari skýringar því í  svari Arion banka, við fyrirspurn Túrista, segir að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um skiptingu lána umfram það sem kemur fram í útgefnu efni bankans. „Hækkað hlutfall til ákveðinna atvinnugreina tengist þó auðvitað nýjum lánveitingum,“ segir jafnframt í svarinu.

Eins og sést á töflunni þá hafa lán tengd fasteignum og mannvirkjagerð, innan túrismans, lítið breyst milli ára en gera má ráð fyrir að til þess flokks tilheyri m.a. lán til hótelabygginga og gistireksturs.  Lán til verkefna sem tengjast þjónustu innan atvinnugreinarinnar hækkuðu um rúmar 900 milljónir en aukningin var langmest í samgönguhlutanum því 6 af hverjum 10 krónum sem Arion lánaði til ferðaþjónustu á síðasta ári rann til þess flokks.

Sem fyrr segir var hlutfall lána til ferðamála 7% af heildarútlánum Arion banka í fyrra. Það er lægra hlutfall en hjá hinum stóru bönkunum því 13% af lánum Íslandsbanka tengjast ferðaþjónustu og 8% hjá Landsbankanum. Í skýrslum þessara banka er ekki að finna sundurliðun á lánum til greinarinnar á sama hátt og hjá Arion banka en Túristi hefur óskað eftir samskonar upplýsingum frá bæði Íslandsbanka og Landsbanka.