Þurfum að læra á Asíumarkaðinn og aðlaga þjónustuna að honum

Arnar Már Ólafsson, markaðsstjóri hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, er einn þeirra Íslendinga sem var á ITB ferðakaupstefnunni í vikunni. Hér ræðir hann þátttökuna og gang mála í ferðaþjónustunni.

„Bókanir líta ekki svo illa út en þetta gæti verið betra," segir Arnar Már hjá Íslenskum fjallleiðsögumönnum.

Hvernig hefur ITB ferðakaupstefnan verið í ár?
Nokkuð góð. Við vorum ekki með fullbókaða dagskrá en það rætist alltaf úr þessu. Þýski markaðurinn mest áberandi en við áttum líka fundi með fólki frá Frakklandi, Bandaríkjunum, Asíu og Skandinavíu.

Er þátttakan þess virði?
Já, hún er það. Árin eru mismunandi góð og það skiptir máli að undirbúa sig vel fyrir sýninguna og fylgja svo fundunum eftir þegar heim er komið. Það er líka hluti af þessu að hitta góða og gamla samstarfsfélaga og taka stöðuna. Það er einnig hægt að sækja sér mikinn lærdóm á ITB. Hér eru áhugaverðir fyrirlestrar, til dæmis um sölumál, áhrif ferðaþjónustunnar vítt og breytt, um offjölgun ferðamanna og ýmislegt annað.

Hvernig lítur árið út hjá ykkur í samanburði við það síðasta?
2017 fór af stað með látum og sumarið var nokkuð gott. Haustið var síðra og árið endaði alls ekki vel. Þetta ár fer frekar hægt af stað því janúar var ekkert sérstakur en febrúar nokkuð góður. Bókanir líta ekki svo illa út en þetta gæti verið betra.

Hvað veldur?
Breytt hegðun ferðamanna vegur þar þungt. Fólk bókar seinna en áður og það heyrum við líka frá samstarfsfólki okkar í Evrópiu. Gengi krónunnar skiptir líka máli. Bandaríkjamarkaður er okkur mikilvægur og dollarinn hefur veikst.

Hefur flóra ferðamanna breyst?
Kínverski og asíski markaðurinn eru vaxandi og fyrir marga í ferðageiranum eru þetta nýir markaðir. Hingað til höfum við verið að laga þjónustuna að þeim hópum sem voru stærstir en þarfir þessa nýja markaðar eru aðrar. Við þurfum að læra á hann og aðlaga þjónustuna að honum. Markaðurinn er risastór og á eftir að vaxa.

Hvernig finnst þér stjórnvöld standa sig?
Ég held að ferðaþjónustan sé að mestu sammála um það sé almennt máttleysi ríkjandi hjá stjórnvöldum varðandi greinina. Það endurspeglast í úrræðaleysi í gjaldtökumálum og endalausri umræðu og allt virðist í lausu lofti. Þetta sást til að mynda í kringum tillögurnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Og það er líka pirringur í greininni út af nýju rútugjöldunum við Leifsstöð. Það var líka ánægja víða með að fá sérstakt ráðuneyti fyrir ferðamálin en aftur á móti vonbrigði að það hefur ekki beitt sér nægjanlega.