Bestu veitingastaðirnir í Stokkhólmi akkúrat núna

Þeir bestu og líka hinir sem voru tilnefndir í ár sem bestur matsölustaðirnir í höfuðborg Svíþjóðar.

Frá Stokkhólmi Mynd: Henrik Trygg/Visit Stockholm

Árlega útdeilir sænska dagblaðið Dagens Nyheter svokölluðum gulldrekum til þeirra veitingahúsa í Stokkhólmi sem þykja skara fram úr í sínum verðflokki. Að þessu sinni var það sushi staðurinn Soyokaze sem þótti bestur í flokki þeirra dýrustu og þeir sem vilja prófa þennan stað ættu að bóka í tíma því þarna eru aðeins sæti fyrir 12 gesti. Kagges í Gamla stan var valinn sá besti í milliverðflokki en þarna er eldað úr lífrænu hráefni og mikil áhersla á grænmetið. Reykhúsið Brisket & Friends þótti svo best í flokki þeirra ódýrustu en þar er aðallega gert út á grillað svínakjöt.

En það eru ekki bara veitingahús sem fá gulldreka frá Dagens Nyheter því eigendur barsins Folii á Södermalm fengu einn slíkan og bakarinn á Fosch á Östermalm líka.

Það þykir mikill heiður í sænsku veitingahúsalífi að fá gulldreka því í framhaldinu flykkjast íbúar Stokkhólms á staðina sem þóttu bestir. Það gæti því orðið erfitt að fá sæti hjá sigurvegurunum og hér er því listi yfir þá staði sem voru tilnefndir í ár og íslenskir ferðamenn gætu kíkt á ef allt er fullt hjá hinum.

Tilefndir í flokki ódýrra veitingahúsa:

Dos Locos – kúbverskur götumatur og kokteilar
Falloumi – Fínt falafel
Raamen – Japanskur skyndibiti
Taku Taku – vegan skyndibiti

Tilnefningar í milliverðflokki:

Ichi – Japanskir réttir með sænsku yfirbragði
Portal – Klassískt veitingahús
Sushi Oi – Nafnið segir allt
Tegelbacken – Smellir úr franska og ítalska eldhúsinu

Dýru veitingastaðirnir

Adam/Albin – fimm réttir á 895 sænskar (11 þúsund kr.)
Gatrologik – Michelin staður þar sem matseðillinn kostar 1.595 sænskar (20 þúsund kr.)
Oaxen krog – Tvær Michelin stjörnur og matseðill staðarins á 2.100 sænskar (um 26 þúsund kr.)
Rutabaga – Grænmetisstaður í hæsta gæðaflokki með minni rétti.

Lengi vel var Icelandair eina flugfélagið sem bauð upp á áætlunarflug héðan til Stokkhólms en svo bættist WOW air við og nú í sumar mun líka Norwegian bjóða upp á áætlunarflug frá Arlanda flugvelli til Íslands.

Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Sjá hér