Stjórnvöld átta sig ekki á afkomunni í greininni

Björg Dan Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Trex, var á ITB í Berlín í vikunni og hún segir ferðakaupstefnuna vera góðan vettvang til að kynnast öðrum íslenskum ferðaþjónstufyrirtækjum. Hún segir verðsveiflunar sem krónan veldur vera til vandræða.

„Þetta ár er erfiðara en það síðasta því verðlagið er orðið hátt og því erfitt að selja Ísland sem áfangastað," segir Björg Dan hjá Trex.

Hvernig hefur ITB ferðakaupstefnan verið í ár?
Mjög fín en það spilar inn í að ég er orðin vanari því þetta er í þriðja skiptið sem ég tek þátt. Ég hef náð að hitta alla mína viðskiptavini en það er reyndar flókið að finna út við hvaða kaupendur þú átt að tala við á þessum langa lista sem við fáum fyrir sýninguna.

Er þátttákan þessi virði?
Já, hún er það og Íslandsstofa heldur mjög vel utan um þetta og umgjörðin flott í ár. Það er líka lærdómsríkt að skoða hvernig fyrirtæki frá öðrum löndum kynna sig. Það er mikils virði fyrir mig sem er nokkuð ný í geiranum að kynnast hér hinum íslensku fyrirtækjunum því það er eiginlega enginn vettvangur heima sem er svipaður þessu. Hér erum við saman í nokkra daga og það skapast góð stemning meðal íslensku þátttakendanna.

Hvernig byrjar árið hjá ykkur?
Þetta ár er erfiðara en það síðasta því verðlagið er orðið hátt og því erfitt að selja Ísland sem áfangastað. Þetta skrifast ekki bara á gengi íslensku krónunnar því það hefur líka áhrif að verðskrár hafa hækkað og það má jafnvel rekja til dýrra fjárfestinga, t.d. í húsnæði í miðborg Reykjavíkur.

Er kúnnaflóra að breytast?
Við erum mjög mikið með Þjóðverja en nú eru að koma miklu fleiri hópar frá Asíu.

Finnst þér stjórnvöld vera sinna greininni nógu vel.
Ég held að ekki sé hægt að segja að ferðaþjónustunni sé að illa sinnt en ég held að þau hafi ekki skilning á greininni, átti sig ekki á afkomunni. Mér finnst ráðherra ferðamála þó mjög öflug. En það eru frekar stóru málin sem mættu breytast, t.d. að við værum með evru en ekki krónu og þyrftum því ekki að búa við með þessar miklu sveiflur í verðlagi.

Þess má geta að Björg er í framboði til stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar en ný stjórn verður kjörin á aðalfundi samtakanna þann 21. mars.