Bretar ferðast minna

Mest hefur dregið úr ferðum til Bandaríkjanna en rekja má stóran hluta niðursveiflunnar til viðskiptaferðalanga. Ferðunum til Íslands fækkaði meira en sem nemur meðaltalinu í Evrópu.

Það varð meiri samdráttur í ferðum Breta til Íslands en almennt í Evrópu í lok síðasta árs. Mynd: Alex Lopez / Unsplash

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit í hittifyrra féll breska pundið og þar með varð dýrara fyrir íbúa Bretlands að ferðast út í heim. Utanlandsferðum Breta fór hins vegar ekki að fækka fyrr en ári síðar og helsta skýringin á því kann að liggja í þeirri staðreynd að margir bóka ferðalög með löngum fyrirvara. Síðustu níu mánuði hefur utanlandsferðunum frá Bretlandi hins vegar fækkað og breskir ferðamenn eyða líka minna í ferðum sínum til annarra landa en þeir gerður árið á undan.

Á síðasta ársfjórðungi 2017 fækkaði þannig utanlandsferðunum um 3% að jafnaði en samdrátturinn í reisum yfir til Bandaríkjanna nam heilum 10 prósentum á meðan heimsóknunum yfir á meginland Evrópu fækkaði um aðeins einn af hundraði samkvæmt frétt Travelmole. Talning Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli leiddi hins vegar í ljós að nærri 5 prósent færri breskir ferðamenn komu hingað síðustu þrjá mánuðina í fyrra í samanburði við sama tímabil árið á undan.