Ekki rétt að láta lífeyrissjóði græða á rekstri flugvalla

Forstjórar tveggja stærstu flugfélaga Evrópu eru sammála um að það hafi verið rangt að setja margar flughafnir álfunnar í hendurnar á fjárfestum.

Lengst til vinstri er Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, og á hinum endanum er Carsten Spohr hjá Lufthansa. Milli þeirra eru forstjórar nokkurra af stærstu flugfélögum Evrópu á fundi í Brussel í dag. MYND: TÚRISTI

Það hefur ekki bætt hag farþega né flugfélaga að fjöldi flughafna í Evrópu eru nú í eigu einkaaðila. Þetta kom fram í máli Carsten Spohr, forstjóra Lufthansa Group, á ráðstefnu Airlines 4 Europe, hagsmunasamtaka evrópskra flugfélaga, í Brussel í dag. „Það hefur ekki verið til góðs að rekstur evrópskra flugvalla gangi út á að hámarka gróða fyrir lífeyrissjóði í Kaliforníu eða annars staðar út í heimi.”

Lagði Spohr til að yfirvöld í Evrópu fylgdu fordæmi Bandaríkjamanna og litu á flugið sem almannasamgöngur og að flugvellir yrðu reknir af hinu opinbera en ekki einkaaðilum. Máli sínu til stuðnings fullyrti Spohr að evrópskir flugvellir væru þeir dýrustu í heimi og því reknir með miklum hagnaði.

Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, sem einnig tók þátt í fundinum, tók undir með Spohr. „Það er galið að laða lífeyrissjóði að flugvöllum og selja þeim þetta sé örugga ávöxtun til 50 ára.”O´Leary fullyrti jafnframt að einkafjárfestingar í flughöfnum takmarki flugsamgöngurnar á sumum mörkuðum því það er ekki alltaf eigendunum í hag að auka afkastagetuna.

Á ráðstefnu A4E eru líka stjórnendur fjölda annarra evrópskra flugfélaga en Icelandair er meðal aðildarfélaga hagsmunasamtakanna.