Er innanlandsflug dýrara en Evrópuflug?

Í umræðunni um innanlandsflug er því stundum haldið fram að það sé dýrara að fljúga á milli landshluta en heimshluta. Hér er gerð tilraun til að kanna hvort að svo sé. Alla vega eins og staðan er í dag.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Norðmaður sem bókar í dag far frá Frøde, Þrándheimi eða Røros til Óslóar borgar að jafnaði 36% minna fyrir ferðalagið en sá sem ætlar að fljúga frá Ósló til Amsterdam, London eða París á næstunni. Og Svíi sem pantar innanlandsflug til Stokkhólms borgar 35% minna en farþeginn sem flýgur frá sænsku höfuðborginni til evrópsku borganna þriggja. Og verðmunurinn er líka innanlandsfluginu í hag þegar borin eru saman lægstu fargjöldin með Air Iceland Connect frá Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Þau eru að jafnaði 29% lægri en farþegum á Keflavíkurflugvelli býðst ef ferðinni er heitið til Parísar, London eða Amsterdam. Meðalverðið hjá flugfélaginu Ernir, til Reykjavíkur frá Húsavík, Höfn og Vestmannaeyjum, er hins vegar 1% hærra en Evrópuflugið kostar en þess ber að geta að hjá Erni fá félagsmenn í ákveðnum stéttarfélögum ódýrari farmiða en almennir farþegar.

Þetta sýna niðurstöður verðkönnunar Túrista þar sem borin voru saman fargjöld á 25 flugleiðum hér á landi og í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi á fjórum mismunandi dagsetningum. Sú fyrsta er í lok næstu viku og sú síðasta seinni hlutann í júní. Meðalverðið sem fundið var nær þannig yfir bókanir sem gerðar eru með stuttum og löngum fyrirvara en einnig yfir virka daga eða helgi. Eins og gefur að skilja eru möguleikarnir óteljandi þegar verð á flugi er borið saman en neðst í greininni má sjá hvaða flugleiðir voru kannaðar og á hvaða dögum.

Skotar sér á báti

Túristi skoðaði einnig stöðuna í Skotlandi og hún er allt önnur en í hinum löndunum því Skotar borga rúmlega tvöfalt meira fyrir innanlandsflug, frá Killwall eða Stornoway til Edinborgar, en þeir greiða fyrir flug frá skosku höfuðborginni til Amsterdam eða Parísar. Meginskýringin á þessu er ekki sú að það sé óvenju ódýrt að fljúga frá Edinborg til útlanda. Nei, þessi mikli munur skrifast á þá staðreynd að innanlandsflugið frá þessum tveimur skoskum bæjum er mun dýrara en þekkist í innanlandsflugi á Norðurlöndunum og er það í takt við niðurstöður könnunnar sem Túristi gerði í haust.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að flug frá Killwall og Stornoway eru hluti af Skosku leiðinni svokölluðu og geta íbúar á svæðunum í kringum þessa flugvelli fengið styrk fyrir helmingi fargjaldsins hjá skoska ríkinu. En í ljósi þessa háa farmiðaverðs í Skotlandi vaknar sú spurning hvort ríkisstyrkurinn hafi neikvæð áhrif á flugverðið og þá helst fyrir þá íbúa Skotlands sem ekki njóta niðurgreiðslunnar. Og um leið dragi þetta háa farmiðaverð úr áhuga ferðamanna á skosku innanlandsflugi.


Dagsetningarnar í könnuninni voru 23-25. mars, 10-13. apríl, 17-21. maí og 19-22. júní. Flugleiðirnar sem skoðaðar voru: Akureyri-Reykjavík, Egilsstaðir-Reykjavík, Ísafjörður-Reykjavík, Höfn-Reykjavík, Vestmannaeyjar-Reykjavík, Húsavík-Reykjavík, Keflavík-Amsterdam, Keflavík-París, Keflavík-London, Þrándheimur-Ósló, Fördo-Ósló, Röros-Ósló, Ósló-London, Ósló-Amsterdam, Ósló-París, Sundsvall-Stokkhólmur, Visby-Stokkhólmur, Gautaborg-Stokkhólmur, Stokkhólmur-París, Stokkhólmur-London, Stokkhólmur-Amsterdam, Killwall-Edinborg, Stornoway-Edinborg, Edinborg-Amsterdam og Edinborg-París.