Eru það hótelgestir eða skattgreiðendur sem borga?

Við úthlutun úr framkvæmdastjóði ferðamannastaða í gær sagði ráðherra ferðamála að þeir 2,8 milljarðar sem færu í framkvæmdina væru í boði skattgreiðenda. Tekjur af gistináttaskatti standa hins vegar undir fjárveitingunni og rúmlega það.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. Mynd: Stjórnarráðið og Iceland.is

Þegar lög um gistináttaskatt voru sett hér á landi árið 2011 þá var yfirlýst markmið skattsins að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt átti að nýta tekjurnar í að auka öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins samvæmt því frumvarpi sem Alþingi samþykkti. Innheimta á skattinum hófst í ársbyrjun 2012 og nam gjaldið þá 100 krónur á hverja gistieiningu sem þýðir í raun að rukkaðar voru aukalega 500 krónur á hvert hótelherbergi  sem leigt var út í 5 nætur. Upphæðin var jafnhá fyrir alla tegundir gistingar, líka svefnpokapláss á farfuglaheimilum.

Síðastliðið haust var gistináttagjaldið þrefaldað og nemur nú 300 krónum á hverja gistieiningu. Gestur á íslenskum gististað borgar því aukalega 1500 krónur af 5 daga gistingu hér á landi og samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs verða tekjur ríkisins af gistináttaskattinum rúmir 1,4 milljarðar í ár.

Lögunum um gistináttaskatt var hins vegar breytt í fyrra í takt við frumvarp Þórdísar Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. Tekjurnar af gistináttaskattinum eru því ekki lengur eyrnamerktar framkvæmdasjóði ferðamannastaða eins og áður var. Og í ljósi þessara breytinga, sem núverandi ráðherra ferðamála gerði í fyrra, þá vekur athygli að hún segi 2,8 milljarða framkvæmdir við ferðamannastaði næstu þrjú ár vera í „boði skattgreiðenda“ í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Það er vissulega rétt að miðað við nýju lögin þá kemur fjármagnið úr ríkissjóði en ef lögunum um framkvæmdasjóðinn hefði ekki verið breytt í fyrra, af frumkvæði Þórdís Kolbrúnar, þá hefðu tekjur af gistináttaskattinum dugað fyrir framkvæmdum upp á 1,4 milljarða í ár. En sem fyrr segir var 2,8 milljörðum úthlutað í gær til framkvæmda við ferðamannastaði til næstu þriggja ára eða rétt um 900 milljónum á ári. Það er hálfum milljarði minna en ríkið hefur í tekjur af gistináttaskattinum.

Þess ber að geta að á næsta og þarnæsta ári verður líka veitt fjármagni til framkvæmda við ferðamannastaði. Ef miðað er við að tekjur af gistináttaskattinum verði óbreyttar næstu ár þá mun hann samtals skila rúmum fimm milljörðum næstu þrjú ár. Þá upphæð væri líklega hægt að hækka þónokkuð ef eftirlit hins opinber með heimagistingu yrði eflt. Því nýleg dæmi sýna, bæði í Frakklandi og í Svíþjóð, að töluverður hluti þeirra sem leigja út til einkahúsnæði til ferðamanna stendur ekki skil á opinberjum gjöldum eins og gistináttaskatti.