Eurowings fækkar aftur ferðum til Íslands

Forsvarsfólk þýska lággjaldaflugfélagsins Eurowings sér ekki hag í auknu framboði á ferðum til Íslands þrátt fyrir brotthvarf eins helsta keppinautarins.

Þotur Eurowings verða sjaldséðari við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í sumar. Mynd: Eurowings

Þýska lággjaldaflugfélagið Eurowings hefur síðustu sumur boðið upp á áætlunarflug til Íslands frá þýsku borgunum Stuttgart, Köln, Dusseldorf, Hamborg og Berlín. Stjórnendur félagsins sóttu hins vegar ekki um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumar fyrir ferðir frá Stuttgart og Berlín og nú herma heimildar Túrista að flugfélagið hafi aflýst flugi sínu frá Dusseldorf og þá standa aðeins eftir tvær ferðir í viku frá annars vegar Köln og Hamborg yfir sumarmánuðina. Túristi hefur reynt að fá þessar og aðrar breytingar staðfestar hjá upplýsingafulltrúum Eurowings síðustu daga en án árangurs.

Við þennan samdrátt hjá Eurowings bætist að starfsemi Airberlin, eins helsta samkeppnisaðila Eurowings á þýska markaðnum, stöðvaðist í vetur. Bæði félög hafa boðið upp á næturflug héðan til Þýskalands og fara þoturnar þá í loftið frá Keflavíkurflugvelli rétt eftir miðnætti. Sá tími sólarhringins hefur hingað til verið skilgreindur sem háannatími í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en umferðin á þessum tíma mun snarminnka í sumar. Ekki aðeins vegna brotthvarfs Airberlin og samdráttar hjá Eurowings heldur líka þar sem Icelandair hefur lagt af ferðir á þessum tíma sólarhrings. Þar með fækkar ferðum félagsins til nokkurra áfangastaða. Til að mynda Munchen en samkvæmt talningu Túrista voru ferðirnar þangað 48 í júlí sl. en verða daglega í sumar. Á móti kemur að Icelandair býður nú í fyrsta sinn í mörg ár upp á áætlunarferðir til Berlínar.

Í heildina verður flogið héðan til 9 þýskra borga í sumar á vegum 5 flugfélaga eins og hér má sjá. En yfir sumarmánuðina eru Þjóðverjar næst fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi.