Farmiðaverðið til Texas hefur sveiflast upp og niður

Brátt verður hægt að fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli til Dallas og það ekki bara með einu flugfélagi heldur þremur.

Mynd: Icelandair
Séð yfir Dallas. Mynd: Icelandair

Bæði Icelandair og WOW air fara jómfrúarferðir sínar til bandarísku borgarinnar Dallas maí og í byrjun júní hefur svo American Airlines, stærsta flugfélag heims, Íslandsflug frá sömu borg. Þar með geta farþegar á leið héðan til Texas valið á milli áætlunarferða þriggja flugfélaga. Aldrei áður hefur ný flugleið verið opnuð fá Keflavíkurflugvelli þar sem samkeppnin er svona mikil frá fyrsta degi.

Túristi hefur fylgst með verðlagi á fluginu til Dallas og eins og sjá má þá hefur það tekið nokkrum breytingum frá því í byrjun vetrar. Þá hafði American Airlines nýhafið sölu á sínum ferðum og voru miðarnir miklu dýrari en hjá íslensku félögunum. Niðurstöður verðkönnunarinnar í lok janúar leiddu hins vegar í ljós að bandaríska flugfélagið hafði lækkað sín fargjöld umtalsvert í júní en var ennþá dýrasti kosturinn á þeim dagsetningum sem kannaðar voru í júlí og ágúst.

Þeir sem bóka farmiða í dag til Dallas í dag komast þangað ódýrast með WOW en fargjöld félagsins í júní og júlí eru ódýrari í dag en þau hafa verið eins og sjá má á töflunni. Verðið í ágúst hefur staðið í stað en þess ber að geta að borga þarf fyrir innritaðar töskur hjá WOW. Það er líka stundum raunin með ódýrustu fargjöldin hjá Icelandair en þau eru þó uppseld á sumum þeim dagsetningum sem kannaðar voru.

Skýringin á hinu óvenju háa farmiðaverði hjá American Airlines dagana 11. til 14 júlí er sú að þá eru bara til sæti á dýrasta farrými. Hjá bandaríska félaginu fylgja veitingar og allur farangur með lægstu fargjöldunum.