Ferðametið frá síðustu páskum gæti verið í hættu

Ríflega 60 þúsund Íslendingar fóru út í páskamánuðinum í fyrra og miðað við ferðagleði landans síðustu misseri og mikla ásókn í bílastæðin við Leifsstöð þá gæti metið frá síðustu páskum verið í hættu.

kef farthegar
Mynd: Isavia

Það er ekkert nýtt að Íslendingar nýti sér frídagana í kringum páska til að ferðast til útlanda og talningar á Keflavíkurflugvelli sýna að fjöldi íslenskra flugfarþega í mars og apríl, ár hvert, ræðst af því í hvorum mánuðinum páskarnir eru. Talan í páskamánuðinum er vanalega nokkru hærri en munurinn hefur þó ekki verið umtalsverður. Árin 2015 og 2016 fóru til að mynda um 3 þúsund fleiri út í þeim mánuði sem páskafríið var.

Í fyrra varð hins vegar aukningin í utanlandsferðum Íslendinga í kringum páska það mikil að langtímabílastæðin við Leifsstöð fylltust en sú staða hafði ekki komið upp áður. Og þegar Ferðamálastofa gaf út talningu sína fyrir apríl í fyrra kom í ljós að þá höfðu rúmlega 62 þúsund Íslendingar ferðast til útlanda í þeim mánuði en páskadagur var þann 16. apríl í fyrra. Fram að því höfðu aldrei áður svo margir Íslendingar ferðast til útlanda í einum mánuði ef júní 2016 er undanskilinn en þá fjölmennti þjóðin á leiki íslenska karlalandsliðisins í fótbolta í Frakklandi.

Eins og staðan er núna þá eru aðeins örfá stæði laus við Leifsstöð þrátt fyrir að þeim hafi verið fjölgað frá því í fyrra. Í dag eru líka fleiri brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar því þær verða 64 talsins en voru 59 í fyrra og 48 á skírdag í hittifyrra samkvæmt talningum Túrista.

Gera má ráð fyrir að sæti séu fyrir 11 til 14 þúsund farþega í þotunum sem taka á loft frá landinu í dag og ennþá er hægt að bóka far út í heim í dag sem kostar innan við 20 þúsund krónur, aðra leið. En þeir sem bóka svo stuttu fyrir brottför geta ekki búist við því að fá stæði fyrir bílinn sinn en hins vegar er hægt að velja á milli fjölda sætaferða út á flugvöll en eins og verðkönnun Túrista í gær sýndi þá er verðið í rúturnar mismunandi.