Fjórðungi fleiri skemmtiferðaskip í sumar

Um 147 þúsund farþegar verða í þeim skipum sem leggjast að bryggju í Reykjavík og Akranesi næstu mánuði.

faxafloahafnir Filippus Johannsson Rotterdam
Mynd: Faxaflóahafnir / Filippus Johannsson

Sumarvertíð skemmtiferðaskipa hjá Faxaflóahöfnum hófst í fyrra um miðjan maí en í ár er von á fyrsta skipinu nú á föstudag. Það fleyið Magellan sem mun hafa sólarhrings viðdvöl við Skarfabakka og um borð verða 1.452 farþegar. Bíða þarf í tvo mánuði þar til næsta skipakoma er á dagskrá og svo koma skipin eitt af öðru fram í október. Alls verða komurnar hjá Faxaflóahöfnum 168 á þessu tímabili og þar af 16 á Akranesi en þangað hélt aðeins eitt skemmtiferðaskip í fyrra. Samtals fjölgar skipakomunum um 33 í ár eða um fjórðung.

Reiknað er með ríflega 146 þúsund farþegar nýti sér skipaferðirnar til Reykjavíkur í sumar en 768 halda til Akraness samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Faxaflóahafna. Allt í allt eru þetta um 19 þúsund fleiri farþegar en síðastliðið sumar og lætur nærri að þriðji hver komi frá Þýskalandi. Bandaríkjamenn eru næst fjölmennastir og svo eru það Bretar. Þessar þjóðir eru líka fjölmennastar í hópi þeirra ferðamanna sem kom til landsins í flugi nema þar eru Bandaríkjamennirnir flestir. Til samanburðar má geta að farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir um 2,5 milljónum erlendra ferðamanna í flugi til Keflavíkurflugvallar í ár.

Stærsta skip sem komið hefur til Reykjavíkur

Þrívegis í sumar mun MSC Meraviglia koma til hafnar í Reykjavík en þetta er langstærsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til Reykjavíkur í tonnum talið. Skipið er var tekið í notkun í fyrra og er 171.598 brútt­ót­onn og 333 metr­ar að lengd. Um borð er rými fyrir rúmlega 4.500 farþega og um fimmtán hundruð manna áhöfn. Ká­et­ur og svít­ur farþeg­anna eru á fimmtán hæðum.

Hugað að losuninni

Síðastliðið sumar var töluverð umræða um mengun frá þeim skemmtiferðaskipum sem liggja við bryggjur hér á landi. Og á vef Faxaflóahafna er að finna ítarlegar upplýsingar um hvernig fyrirtækið stendur að umhverfismálum í kringum komur skemmtiferðaskipa og starfsemi sína almennt. Til að mynda kolefnisjafna Faxaflóahafnir losunina frá skipunum með því að planta skógi í landi Klafastaða í Hvalfjarðarsveit í samstarfi við Skógræktina. Faxaflóahafnir eru jafnframt eitt 130 fyrirtækja á Íslandi sem hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við Parísarsamkomulagið.