Fjórir vilja leiða Samtök ferðaþjónustunnar

Nýr formaður verður kjörinn á aðalfundi SAF í næstu viku og einnig verða kjörnir fjórir stjórnarmenn.

Mynd: Curren Podlesny / Unsplash

Forsvarsfólk aðildarfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar mun hafa úr fjórum frambjóðendum velja þegar kemur að formannskosningu á aðalfundi samtakanna næstkomandi miðvikudag. En Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, tilkynnti fyrir mánuði síðan að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. Í framhaldinu gaf Þórir Garðarsson, núverandi varaformaður og framkvæmdastjóri Gray Line, út að hann sæktist eftir formannsstólnum og stuttu síðar bauð Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla DMI, sig fram. Framboðsfrestur rann út í dag og samkvæmt frétt á heimsíðu SAF þá sækjast þeir Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, og Róbert Guðfinnsson, stjórnarformaður Rauðku, einnig eftir formannsembættinu.

Auk formannaskosningarinnar þá verða fjórir nýir valdir í sjö manna stjórn SAF á aðalfundinum. Átta forkólfar íslenskra ferðaþjónustufyrirækja sækjast eftir þeim sætum og þau eru Björg Dan Róbertsdóttir framkvæmdastjóri TREX, Gunnar Rafn Birgisson eigandi Atlantik ferðaskrifstofu, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, Hendrik Berndsen stjórnarformaður Hertz, Ívar Ingimarsson stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri, Jakob Einar Jakobsson framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, Ólöf R. Einarsdóttir eigandi Mountaineers of Iceland og Sævar Freyr Sigurðsson stofnandi og eigandi Saga Travel.

Þau Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group, sitja nú þegar í stjórn SAF, en þau voru kjörin til tveggja ára á aðalfundi samtakanna árið 2017.