Ennþá laus sæti í rútunum út á flugvöll

Það stefnir í að bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyllist um páskana. Þeir sem vilja leyfa vinum og ættingjum að sofa út í páskafríinu í stað þess að skutla út á flugvöll hafi nokkra kosti í stöðunni en þeir eru mismunandi dýrir.

Það stefnir í að stæðin við Leifsstöð fyllist um páskana. Mynd: Isavia

Þrátt fyrir tíðar sætaferðir milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar þá mun hlutfall íslenskra farþega í flugrútunum vera lágt. Íslendingar á leið til útlanda keyra nefnilega í langflestum tilfellum út á Keflavíkurflugvöll og það verður til þess að bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyllast þegar óvenju margir ætla til útlanda. Það varð raunin um síðustu páska og það stefnir í álíka ástandi í ár samkvæmt frétt Mbl.is. Ennþá er þó hægt að bóka stæði fyrirfram og eins og staðan er í núna þá kostar bílastæði frá skírdegi og fram á annan í páskum 7.950 krónur. Ekki mun vera ráðlegt að keyra út á flugvöll yfir páskana án þess að hafa tryggt sér pláss á langtímastæðinu.

Þessi óvenjulega staða gæti orðið til þess að mun fleiri Íslendingar nýti sér sætaferðirnar út á flugvöll næstu daga en þrjú fyrirtæki bjóða upp á ferðir allan sólarhringinn. Verðið er þó mismunandi eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan en ódýrasta fjölskyldufarið er hjá Airport Express en þar kostar miði, báðar leiðir, 9.750 krónur fyrir 2 fullorðna, einn ungling og eitt barn. Hjá Flugrútunni kostar 13.750 kr. fyrir alla fjóra en 14.250 hjá Airport Direct. Samkvæmt athugun Túrista eru ennþá laus sæti hjá fyrirtækjunum á skírdag og annan í páskum.

Strætó keyrir einnig út á flugvöll og kostar stakt fargjald 1.840 krónur en fyrstu ferðirnar eru ekki nógu tímanlega fyrir þá farþega sem eiga bókað far með morgunflugi út í heim. Leigubílastöðvarnar bjóða einnig ferðir út á Keflavíkurflugvöll og kostar skutlið 16 þúsund hjá Hreyfli en 14.500 hjá BSR.

Þeir sem vilja þrátt fyrir allt keyra út á flugvöll geta líka bókað stæði hjá fyrirtækjum eins og Bílahótel og Baseparking.