Forsetahjónin í fótboltann

Þátttaka íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi í hittifyrra mun hafa haft jákvæð áhrif á ferðmannastrauminn og nú á að nýta sér þá athygli sem líklegt er að liðið fái í tengslum við leikina á HM í Rússlandi í sumar.

Mynd: Íslandsstofa

Guðni Th. Jóhannesson, forseti og Eliza Reid, forsetafrú bjóða heiminum að taka þátt í HM-ævintýri Íslendinga í nýju myndbandi frá Inspired by Iceland. Forsetahjónin hvetja fólk til að ganga til liðs við „Team Iceland“ og upplifa gleðina frá fyrstu hendi og kynnast landinu betur. Nú eru rétt um þrír mánuðir í fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi.

Öllum gefst kostur á að vera með í „Team Iceland“ og taka virkan þátt í eftirvæntingunni og gleðinni með þjóðinni og jafnframt kynna sér það sem landið hefur fram að færa samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Íslandsstofu. „Við hvetjum alla Íslendinga til að ganga til liðs við „Team Iceland“, nota #TeamIceland myllumerkið og deila myndbandinu með vinum og vandamönnum, bæði heima og erlendis,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu. Hægt er að ganga til liðs við „Team Iceland“ á síðunni www.teamiceland.com. Við skráningu fær hver stuðningsmaður til dæmis rafræna leikmannatreyju með einstöku númeri og íslenskri útgáfu af eftirnafni viðkomandi þar sem hann er kenndur við eiginnafn föður eða móður með viðskeytinu -son eða -dóttir til að deila á samfélagsmiðlum. Einnig verður hægt að vinna ferð til Íslands. Þetta er fyrsti áfangi í markaðsherferðinni á árinu.

Kastljósið beinist að Íslandi

Árangur íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi 2016 vakti heimsathygli og jókst áhuginn á landinu mikið. Það er viðbúið að áhuginn á Íslandi vegna HM verði jafnvel enn meiri en fyrir tveimur árum segir í tilkynningunni.  Því var ákveðið að ráðast í markaðsverkefni fyrir íslenskt atvinnulíf með það markmið að auka vitund um Ísland sem góðan stað til að heimsækja, sem upprunaland gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað fyrir fjárfestingar og viðskipti. Þetta er samstarfsverkefni fyrirtækja og stjórnvalda og er unnið í góðri samvinnu við KSÍ.

“Við finnum daglega fyrir því, bæði hérlendis og erlendis, hversu mikils stuðnings íslenska landsliðið nýtur í aðdraganda keppninnar. Þegar Íslandsstofa leitaði til okkar þá leist okkur strax vel á hugmyndina og það verður gaman að sjá árangurinn af herferðinni. Við erum öll saman í liði,” segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins sem er unnið undir merkjum Inspired by Iceland og er Team Iceland og boð forsetahjóna fyrsti áfangi í markaðsherferðinni á árinu.