Fylla skarðið í Vínarfluginu en ekki fyrr en á næsta ári

Flugsamgöngur milli Íslands og Austurríkis verða mun takmarkaðri í sumar en á því verður breyting í lok næsta vetrar með elleftu flugleið Wizz Air til Íslands.

vin2
Frá Vínarborg. MYND: WIENTOURISMUS

Í sumar verða í boði áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli til 9 borga í Þýskalandi og þriggja í Sviss og ríkir samkeppni á flestum þessara flugleiða. Á sama tíma er framboð á flugi héðan til nágrannalandsins Austurríkis lítið og verður minna í sumar en undanfarin ár vegna þess að rekstur FlyNiki stöðvaðist í byrjun vetrar. Þar með verður næturflug Austrian Holidays yfir hásumarið eina flugið milli Íslands og Vínarborgar. Þetta hefur áhrif á ferðamannastrauminn hingað frá Austurríki því eins og Túristi greindi frá þá komu hingað helmingi fleiri Svisslendingar en Austurríkismenn síðastliðið sumar jafnvel þó þjóðirnar tvær eru næstum jafn fjölmennar.

Í lok mars á næsta ári þá verður hins veruleg breyting í samgöngunum héðan til Vínarborgar því þá mun Wizz Air hefja flug hingað á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum samkvæmt tilkynningu frá félaginu. En Wizz Air opnar starfsstöð á flugvellinum í Vínarborg í ár og það gerir reyndar easyJet líka og því ekki ólíklegt að það félag hefji jafnframt flug hingað frá Vínarborg líkt og Túristi hefur áður leitt líkur að. Samkvæmt tilkynningu Wizz Air þá kosta ódýrustu farmiðarnir milli Íslands og Vínarborgar rétt um 6.200 krónur (49.99€).