Georg hættir í stjórn Icelandair Group

Fjórir af þeim fimm sem sitja í stjórn stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins gefa kost á sér fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður í næstu viku.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Sjö eru í framboði til stjórnar Icelandair Group en fimm manna stjórn félagsins verður kjörin á aðalfundi fyrirtækisins á fimmtudag. Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, sem tók sæti í stjórninni í fyrra sækist ekki eftir endurkjöri samkvæmt lista yfir frambjóðendur sem birtist í tilkynningu frá Icelandair Group.

Þar eru hins vegar nöfn Ásthildar Margrétar Otharsdóttur, Katrínar Olgu Jóhannesdóttur, Ómar Benediktssonar og Úlfars Steindórssonar stjórnarformanns en þessi fjögur eiga í dag öll sæti í stjórn Icelandair. Heiðrún Jónsdóttir, Helga Viðarsdóttir og Guðmundur Hafsteinsson bjóða sig jafnframt fram til stjórnar Icelandair Group en fyrirtækið er umsvifamesta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.