Hætta Íslandsflugi frá Prag

Í fyrsta sinn síðan að Wizz Air hóf að fljúga hingað til lands leggur félagið niður flugleið til Keflavíkurflugvallar. Meginástæðan er þó ekki skortur á eftirspurn eftir flugi milli Íslands og Tékklands.

Mynd: Wizz Air

Reykjavík verður einn þeirra áfangastaða sem ungverska flugfélagið Wizz Air ætlar að sinna frá nýrri starfsstöð sinni í Vínarborg á næsta ári. En liður í því að koma starfseminni í gang í austurrísku höfuðborginni er að flytja flugvélar og áhafnir frá nokkrum öðrum evrópskum flughöfnum. Þar á meðal frá Vaclav Havel flugvellinum í Prag en þaðan hefur Wizz Air boðið upp á áætlunarflug til níu borga, þar á meðal Reykjavíkur. Síðasta ferðin er á dagskrá þann 13. júní næstkomandi.

Þar með verður Czech Airlines eina flugfélagið sem flýgur milli Tékklands og Íslands en áætlun þess takmarkast við sumarmánuðina á meðan Wizz Air hefur haldið úti fluginu í allan vetur. 

Áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli til Prag á sér þó ekki langa sögu því bæði Wizz Air og Czech Airlines fóru sínar jómfrúarferðir í fyrra. Wizz Air um vorið og hið síðarnefnda í sumarbyrjun. Í framhaldinu fjölgaði tékkneskum hótelnóttum hér á landi 47% en ennþá liggja ekki fyrir tölur Hagstofunnar um gistinætur tékkneskra ferðamanna annars staðar en á hótelum. Tékkar eru ekki taldir sérstaklega í talningum Ferðamálastofu við vopnaleitina í Leifsstöð.