Handfarangurinn er vandamál

Það er ekki pláss fyrir allar töskurnar sem fólk tekur með sér farangursrýmið.

easyjet 2017
Mynd: easyJet

Svíinn Johan Lundgren tók nýverið við sem forstjóri easyJet og hefur hann síðan þá varið dágóðum tíma í að fara yfir athugasemdir frá farþegum félagsins. Hann segir ánægjulegt hversu margir fari sáttir frá borði en á sama tíma verði ekki framhjá því litið að handfarangurinn er vandamál. „Töskurnar eru einfaldlega of margar miðað við plássið,” segir Lundgren í leiðara sínum í nýjasta tölublaði flugtímarits easyJet.

Vegna þessa hefur hinn nýbakaði forstjóri sett á laggirnar sérstakan vinnuhóp innan easyJet sem á að finna lausn á vandamálinu. Og þannig koma í veg fyrir pirring og leiðindi um borð í flugvélum lággjaldaflugfélagsins og jafnvel seinkanir því stundum tekur það áhafnirnar mikinn tíma að koma öllum handfarangrinum fyrir.

Það er góðra gjalda vert að Lundgren sé meðvitaður um að það er ákveðið vandamál hversu mikill handfarangurinn er orðinn. En augljósa lausnin er sennilega sú að hætta að rukka fyrir innrituðu töskurnar eða gera þann kost alla vega ódýrari en hann er í dag. Til dæmis þarf að borga allt að 8 þúsund krónur fyrir eina innritaða tösku í Íslandsflug easyJet. En síðustu 6 ár hefur easyJet verið þriða umsvifamesta flugfélagið á  Keflavíkurflugvelli.