Hlutdeild flugfélaganna í febrúar

Í flugferðum talið þá stendur Icelandair ennþá undir stærri hluta af umferðinni um Keflavíkurflugvöll en WOW air en hlutföllin hafa breyst umtalsvert síðustu ár.

icelandair wow
Íslensku flugfélögin tvö stóðu undir um 7 af hverjum 10 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar. Myndir: Icelandair og WOW air

Fyrstu tvo mánuði ársins hefur WOW air flutt fleiri farþega en Icelandair jafnvel þó flugferðirnar á dagskrá þess síðarnefnda séu fleiri. Ástæðan er sú að sætanýtingin hefur verið hærri hjá WOW air og félagið hefur líka í flota sínum stærri flugvélar en Icelandair og getur því að jafnaði flutt fleiri í hverri ferð.

Bilið á milli flugfélaganna tveggja hefur hins vegar minnkað hratt síðustu ár. Í febrúar árið 2013 stóð Icelandair til að mynda undir nærri 8 af hverjum 10 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli og WOW air var með rúmlega tíund. Staðan í dag er allt önnur eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Þar sést líka hvernig vægi annarra flugfélaga, en þeirra þriggja stærstu, hefur aukist og hefur aldrei verið eins hátt eins og í síðasta mánuði.