Hræðist ekki samkeppnina í flugi til New York

Framkvæmdastjóri United Airlines segir að þó baráttan verði hörð um farþega á Keflavíkurflugvelli þá efist hann ekki um einstaka stöðu bandaríska flugfélagsins á íslenska markaðnum.

Mynd: United Airlines

Í sumarbyrjun fer United Airlines jómfrúarferð sín til Íslands en bandaríska flugfélagið ætlar að fljúga til Íslands frá Newark flugvelli, skammt frá New York, í sumar og fram á haust. Með tilkomu United Airlines harðnar samkeppnin verulega um farþega á leið milli Íslands og fjölmennustu borgar Bandaríkjanna því Delta, Icelandair og WOW air sinna nú þegar þessari flugleið allt árið um kring.

Í heildina munu farþegar á Keflavíkurflugvelli geta valið á milli hátt í sextíu brottfara í viku hverri héðan til New York en Bob Schumacher, svæðisstjóri United Airlines fyrir Bretland og Ísland, hræðist ekki samkeppnina. „Þjónustan okkar sker sig frá hinum og við erum ekki hrædd við samkeppni. Héðan frá skrifstofunni minni er t.d. stutt í flugbrautirnar við Heathrow en þaðan er hörð samkeppni í flugi til New York. Við stöndum okkur engu að síður vel. Einn helsti styrkleiki United Airlines er starfsstöðin í Newark. Ekki aðeins vegna þess að þaðan er stutt til New York heldur líka vegna þeirrar staðreyndar að þaðan bjóðum við upp á áætlunarflug til meira en 100 áfangastaða. Þetta getur ekkert annað flugfélag boðið upp á.“

Helmingurinn kemur frá New York

Sala á flugmiðum í Íslandsflug United Airlines hófst í byrjun vetrar og Schumacher segir viðtökurnar góðar. Meirihluti farþeganna komi frá Bandaríkjunum eins og við var búist enda er íslenski markaðurinn lítill. „Við fáum farþega frá öllum Bandaríkjunum en helmingurinn er þó frá New York svæðinu eins og reikna má með þegar áætlunarflug hefjst frá svona fjölmennri borg. Aðspurður um hvort stjórnendur United Airlines hafi lengi velt fyrir sér að hefja Íslandsflug þá segir Schumacher að Ísland hafi verið á ratsjánni í töluverðan tíma enda spennandi markaður. „En þetta ræðst líka af flugflotanum og efnhagsástandinu“.

Til að byrja með mun United Airlines aðeins bjóða upp á flug hingað fram á haustið og segir Schumacher það gert til að meta markaðinn frá báðum löndum. Í framhaldinu ræðst svo hvort tímabílið verði lengt. Framkvæmdastjórinn leynir því ekki að hann er ánægður með þá flugtíma sem fengust á Keflavíkurflugvelli og segir þá góða fyrir íslenska farþega því brottförinn vestur er á dagskrá um morguninn. „Fólk lendir þá á Newark á góðum tíma og getur haldið áfram þaðan ef það kýs“.

Tækifæri í sjálftengifarþegum

Með auknu flugi erlendra flugfélaga til Íslands hafa skapast margir möguleikar á því fyrir farþega að fljúga með einu flugfélagi til Keflavíkurflugvallar og halda svo áfram samdægurs með öðru flugfélagi. Schumacher segir félagið sjái að sjálfsögðu tækifæri í þessum sjálftengifarþegum. „Við verðum vör við að markaðurinn er að breytast og þeir farþegar United sem lenda á Íslandi árla dags geta flogið áfram til Evrópu með fjölda flugfélaga, t.d. flugfélögum sem eru með okkur í Star Alliance.“

Fyrsta ferð United Airlines frá Íslandi er á dagskrá 24.maí.