Katrín Olga ekki endurkjörin

Á aðalfundi Icelandair var ný fimm manna stjórn kjörin og í henni verða tveir nýliðar.

Mynd: Icelandair

Icelandair Group, stærsta ferðaþjónustfyrirtæki landsins, hélt aðalfund sinn í dag og þar var stjórn félagsins kjörinn. Úlfar Steindórsson sem tók við sem stjórnarformaður fyrir ári síðan heldur sínu sæti og það gerður líka Ómar Benediktsson og Ásthildur Margrét Otharsdóttir. Hins vegar náði Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, ekki kjöri. Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, sem sitið hefur í stjórn Icelandair síðastliðið ár sótti ekki eftir endurkjöri.

Í stað Katrínar Olgu og Georgs koma Guðmundur Hafsteinsson og Heiðrún Jónsdóttir. Guðmundur leiðir daglega vöruþróun Google Assistant hjá Google netrisanum og Heiðrún erlögmaður hjá Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofu.

Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair þá verður Úlfar áfram stjórnarformaður og Ómar Benediktsson varaformaður.