Kínversk stjórnvöld sjá fram á stóraukin ferðamannastraum til Íslands

Beint flug milli Íslands og Kína gæti verið forsendan fyrir þeim mikla vexti sem kínversk stjórnvöld gera ráð fyrir í komum kínverskra ferðamanna hingað til lands.

Það mun taka um 10 og hálfan klukkutíma að fljúga frá Íslandi til Peking. Mynd: wu yi / Unsplash

Á árunum eftir hrun voru Kínverjar í sextánda sæti á listanum yfir fjölmennustu þjóðirnar í hópi ferðamanna hér á landi en fjöldi þeirra hefur fimmtánfaldast síðan þá og Kínverjarnir komnir upp í sjötta sætið á topplistanum. Í fyrra fóru 86 þúsund kínverskir flugfarþegar um Keflavíkurflugvöll eða 29% fleiri en árið á undan.

Í ár er gert ráð fyrir að það hægi nokkuð á komum erlendra ferðamanna en hins vegar gera spár kínverskra stjórnvalda ráð fyrir áframhaldandi miklum vexti samkvæmt því kom fram í viðtali Viðskiptablaðsins við forsvarsfólk greiðslufyrirtækisins Central Pay, sem sérhæfir sig í greiðslum fyrir kínverska ferðamenn. Í viðtalinu er vísað í útgefnar tölur kínverskra stjórnvalda sem geri ráð fyrir því að í ár sæki 108 þúsund Kínverjar Ísland heim eða um fjórðungi fleiri en í fyrra. En svo taka tölurnar mikinn kipp því þessar spár Kínverja gera ráð fyrir að hingað komi 300 þúsund kínverskir ferðamenn árið 2020 eða ríflega þrefalt fleiri en komu hingað í fyrra. 

Túristi hefur ekki þessar tölur undir höndum og veit ekki hvaða forsendur búa að baki en það er óhætt að fullyrða að ef hingað eiga að fljúga að jafnaði 820 kínverskir ferðamenn á dag árið 2020 þá þarf að koma til beint flug milli Íslands og Kína. Ekki bara til að auðvelda samgöngurnar heldur líka til að gera flugið hingað ódýrara og mögulegt fyrir fleiri. Og í ljósi þess að spáin kemur frá kínverskum stjórnvöldum sem eru á ýmsan hátt innblönduð í rekstur stærstu flugfélaga landsins þá er ekki annað hægt en að áætla að þotur Air China, China Eastern eða China Southern verði fljótlega tíðir gestir á Keflavíkurflugvelli.

Hinn möguleikinn er sá að kínversk stjórnvöld viti fyrir víst að Icelandair og WOW air ætli sér að hefja áætlunarflug til Kína á næstu misserum og það sé forsendan fyrir þessari ótrúlegu spá.