Lán til ferðaþjónustunnar hækkuðu um 32 milljarða

Vægi lánveitinga sem tengjast túrisma er mismunandi hátt hjá stærstu bönkunum en hæst er það hjá Íslandsbanka. Arion banki jók lánin til greinarinnar langmest í fyrra og þá aðallega í samgöngumál.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold

Lán til ferðaþjónustunnar námu tæplega 223 milljörðum króna í lánabókum Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans um síðustu áramót. Höfðu þau hækkað um 33 milljarða frá árinu 2016 samkvæmt þeim upplýsingum sem finna má í ársuppgjörum bankanna þriggja. Vægi lána til ferðaþjónustunnar er langhæst hjá Íslandsbanka eða 13% af útistandandi lánum til viðskiptavina bankans. Hjá Landsbankanum er hlutfallið 8% en 7% hjá Arion banka. Hjá tveimur fyrrnefndu bönkunum var hlutfall lána til ferðaþjónustu óbreytt frá árinu 2016 en hækkaði um 2 prósentustig hjá Arion.

Í milljörðum talið þá er skuld ferðaþjónustunnar 94 milljarðar hjá Íslandsbanka á meðan skuldin við Landsbankanna nemur 75 milljörðum og nærri 54 milljörðum hjá Arion banka. Í heildina voru þetta 223 milljarðar um síðustu áramót en í árslok 2016 var heildarskuldin nærri 191 milljarður. Viðbótin nemur því 32 milljörðum og rúmur helmingur hennar kemur frá Arion banka því þar jukust útlán tengd ferðaþjónustu um 18 milljarða í fyrra. Stærsti hluti þessarar viðbótarlána frá Arion banka fóru í samgöngumál innan ferðaþjónustu því lánveitingar til fyrirtækja í þess háttar rekstri fjórfölduðust í fyrra. Fóru úr 3,6 milljörðum í 14,5 milljarða líkt og Túristi greindi núverið frá nýverið.

Það fást hins vegar ekki nánari upplýsingar frá Arion banka um hvernig þessi lán skiptast á milli greina en samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar, sem Arion banki styðst við, þá gætu lánin hafa farið til flugfélaga, bílaleiga, hópferðafyrirtækja auk annars konar fyrirtækja sem tengjast á einhvern hátt samgöngum innan ferðaþjónustu.

Túristi hefur óskað eftir upplýsingum frá bæði Íslandsbanka og Landsbankanum um hvernig lán þeirra til ferðaþjónustunnar skiptast eftir flokkum en í svari Landsbankans segir að ekki sé hætt að veita frekari upplýsingar. Hjá Íslandsbanka munu 55% allra lána til ferðaþjónustu flokkast undir verslun og þjónustu, 21% tilheyrir fasteignafélögum, 18% heyrir undir iðnað og flutning en þau 6% sem eftir standa eru óflokkuð.