Samfélagsmiðlar

Fleiri sem tala ensku í París en færri sem tala íslensku á Íslandi

Laufey Helgadóttir hefur ekki aðeins mikla reynslu af því að kynna Íslendingum Frakkland því á sumrin fer hún um Ísland með franska ferðamenn.

Fararstjórinn Laufey Helgadóttir að störfum.

Í vor leiðir Laufey hópa á vegum Bændaferða um París og í haust eru Normandí og Bretagne á dagskrá.  Hér segir Laufey okkur frá hinni klassísku ferðamannaborg París, líkindunum með okkur og Bretónbúum og hinum sterku tengslum svæðisins við Ísland. Og það er ýmislegt sem við Íslendingar og íslensk ferðaþjónusta getur lært af Frökkum að hennar mati.

Hefur aðdráttarafl Parísar breyst á einhvern hátt síðustu ár? Er það eitthvað annað sem fólk vill upplifa þar nú en fyrir nokkrum árum eða breytist þetta lítið?

Aðdráttaraflið hefur ekki mikið breyst að mínu mati frá því ég kom hingað fyrst á áttunda áratugnum, enda er París alltaf ein fegursta borg í heimi. Hún er ennþá borg glæsileikans, hátískunnar og hámenningar þó hún sé líka borg kröfugangna, götumenningar og ódýrra veitingastaða. Ferðamaður sem kemur til Parísar í stutta heimsókn sér borgina öðruvísi en heimamenn, eins og gefur að skilja. En allir tengja borgina við eitthvað sem þeir hafa heyrt eða séð og þar af leiðandi upplifa margir París sem rödd eða enduróm þeirra sem hafa sungið um hana, málað hana, kvikmyndað hana eða ort til hennar. Hver hefur ekki
sönglað eða heyrt í fjölmiðli, “Sous le pond de Paris”, eða “Sous le ciel de Paris” og hver hefur ekki séð kvikmynd þar sem borgin hefur verið nýtt sem bakgrunnur eða innblástur? Borgin er enn þann dag í dag ótæmandi uppspretta, stórveisla fyrir öll skilingarvitin eins og Hemmingway lýsir svo vel í bók sinni « Veislan í farangrinum » frá sjöunda áratugnum og það hefur ekkert breyst. Flestir sem koma hingað í fyrsta skiptið vilja fyrst og fremst sjá helstu kennileiti borgarinnar eins og t.d. Eiffel turninn, Sigurbogann, Louvre safnið, Orsay safnið, Centre Pompidou, Notre Dame kirkjuna, Sacré Cæur og Place de Tertre torgið upp á Montmartre hæðinni. Margir vilja líka reika um Mýrina og Latínuhverfið, staldra við á kaffihúsum Saint-Germain- des-Prés og jafnvel feta í fótspor þeirra listamanna sem eitt sinn bjuggu í Montparnasse hverfinu. Það sem hefur aftur á móti breyst er að ferðamennirnir eru nú betur upplýstir en áður, enda alltaf með Netið við hendina. Einnig hefur viðmót Parísarbúa gagnvart ferðamönnum skánað mikið og er nú t.d. auðveldara að fá þá til að tala ensku.

Þú munt leiða hóp Íslendinga um París í maí. Hvað finnst þér einkenna vorstemninguna í borginni?

Vorið er yndislegur tími í París og þó klisjan og hin fræga kvikmynd og sönglag tali um « April in Paris »  þá finnst mér persónulega maí mánuður betri. Þá er farið að anda hlýju, garðarnir orðnir grænir, hin fjölbreytilega blómaflóra í óða önn að springa út, brum á greinum trjánna búin að opna sig og trjágróðurinn þar af leiðandi sjaldan eins fallegur. Þá er fátt skemmtilegra en að rölta um borgina, leyfa huganum að reika, helst týnast eða koma sér fyrir á einum af terrössum kaffihúsanna, anda að sér andrúmslofti og lykt borgarinnar og finna vorilminn í lofti. Það er alltaf jafn vinsælt meðal ástfanginna ferðamanna að fara í rómantískar gönguferðir um Signubakka og innsigla ást sína með því að setja hengilás á eina af brúnum yfir Signu og henda síðan lyklinum í ána.

Í ár eru nákvæmlega 50 ár frá því að stúdentar í París gerðu uppreisn sem varð fræg og hefur verið kölluð einfaldlega « Mai´68 » og má búast við að það verði eitthvað gert til að minnast þeirra tíma.

Í haust er svo á dagskrá ferð um Bretagne. Hvað er það sem helst heillar þig við þann hluta Frakklands?

Frakkland er ótrúlega fjölbreytt og auðugt land, þar sem hvert hérað hefur sína sérstöðu, sinn persónuleika, sínar matarhefðir og jafnvel sitt tungumál eins og t.d. á Bretagne skaga þar sem margir tala ennþá bretónsku, Frakkar sjálfir eru líka ólíkir eftir því úr hvaða héraði þeir koma. Ég man að þegar ég kom í fyrsta skipti til eyjunnar Belle-Île- en-Mer, sem er við strendur Bretagne skaga, fannst mér landslagið minna um margt á Ísland. Einnig hefur mér alltaf fundist að Bretónbúar séu það fólk í Frakklandi sem líkist okkur mest. Ef til vill er það vegna keltnesks uppruna okkar? Þeir eru t.d. afar söngelskir, gestrisnir, þrjóskir og hafa gaman að því að skvetta í sig og segja sögur. Og hvergi er betra að fá sér pönnuköku með « cider » drykk.

Við förum reyndar ekki bara til Bretagne skaga í ferðinni því við munum byrja á því að keyra til Normandí þar sem við skoðum m.a. Bayeux refilinn fræga í samnefndri borg. Eftir það verður ekið meðfram ströndinni á slóðir seinni heimsstyrjaldarinnar þar sem her Bandamanna gekk á land og ameríski herkirkjugarðinn í Colleville-sur-Mer verður heimsóttur. Við skoðum einnig hina frægu klettaeyju Mont Saint Michel, staðsett við ána Couesnon sem markar landamærin á milli Normandí héraðs og Bretagne skaga og þar sem hvergi er meiri munur flóðs og fjöru í Frakklandi. Klettaeyjan þykir eitt af undrum veraldar, enda á heimsminjaskrá Unesco. Á heimleiðinni frá St Malo til Parísar munum við staldra við í gamla bænum Dinan áður en við förum til Giverny til að skoða hinn stórkostlega garð málarans Claude Monet og húsið þar sem hann bjó seinni hluta ævinnar. Þannig að þetta er afskaplega fjölþætt og skemmtileg ferð.

Sjómenn frá Bretagne stunduðu Íslandsmið og þið munuð kynna ykkur þá sögu. Og þessari Íslandstenginu er ennþá haldið á lofti í Bretagne ekki satt?

Jú svo sannarlega. Við munum fara til Paimpol þar sem götur, hús skilti og veitingastaðir bera ennþá merki Íslandsveiðanna. Paimpol er einnig sögusvið hinnar frægu frönsku skáldsögu « Pêcheurs d’Islande » eftir Pierre Loti og eldri Frakkar þekkja flestir sönglagið « La Paimpolaise » eftir Théodor Botrel. Paimpol er auk þess vinabær Grundarfjarðar. Þar er m.a. lítið sjómannasafn þar sem þessi áhrifamikla saga er sett fram og rekin á lifandi hátt. « Saga velsældar fyrir fáa, vesældar fyrir marga og sorgarsaga fyrir fjölskyldur þeirra » segja sumir Bretónar vegna þess að Íslandssiglingunum fylgdu ómannlegar fórnir, eins og sjá má í kirkjugarðinum í Ploubazlanec þar sem hinn áhrifamikli Veggur hinna horfnu geymir nöfn og minningarskildi um þá sem fórust við Íslandsstrendur. Í Perros–Hamon kapellunni sem var tileinkuð sjómönnum og fjölskyldum þeirra má einnig sjá safn af skjöldum sem eru ýmist þakkarskildir fyrir þá sem komu til baka eða minningarskildir um þá sem fórust. Paimpol er einn af þekktustu stöðunum í Norður Frakklandi í tengslum við þessa Íslandstengingu sem hefur sjaldan verið jafn sterk og virðist aukast ár frá ári.

Frakkland er það land sem tekur á móti flestum ferðamönnum og þú hefur reynslu af fararstjórn bæði þar og hér á Íslandi. Finnst þér íslensk ferðaþjónusta eitthvað geta lært af þeirri frönsku?

« Ég á tvær ástir, París og mitt eigið land » söng Josephine Baker af hjartans innlifun á tímum « la belle époque » og tek ég heilshugar undir það með henni. Ég hef unnið við leiðsögn á báðum stöðum í mörg ár, á sumrin á Íslandi og vorin og haustin í París og ber þess vegna ósjálfrátt saman ferðaþjónustuna hér og þar. Það er margt vel gert á báðum stöðum, en margt mætti líka betur fara. Í Frakklandi er starfsheiti leiðsögumanna lögverndað og getur þar af leiðandi enginn nema sá sem hefur réttindi farið með hópa inn á söfn eins og t.d. Louvre safnið, Orsay safnið eða inn í Versala höll, svo örfá dæmi séu tekin. Þó félag leiðsögumanna á Íslandi hafi barist fyrir því í mörg ár að fá starfsheiti leiðsögumanna lögverndað hefur það því miður ekki tekist ennþá. Þess vegna getur hver sem er leiðsagt á Íslandi með þeim afleiðingum sem auðvelt er að geta sér til um. Á ferðum mínum um Ísland síðastliðin sumur hef ég rekist á fleiri erlenda réttindalausa leiðsögumenn heldur en íslenska og hef ekki ennþá fengið skýringu á því. Einnig hefur mér fundist afar erfitt að þurfa að tala ensku á flestum gisti- og veitingastöðum út á landi og jafnvel við fólkið í móttöku hótelanna þegar ég hringi á undan mér áður en ég kem með hópana í svefnstað. Ég var allt í einu orðin útlendingur í eigin landi og viðurkenni að það er óþægileg tilfinning. Okkur er jú sagt að það séu alls konar ástæður fyrir þessari þróun, að það sé m.a. erfitt að fá fólk í vinnu út á land, að íslenskur starfskraftur geri hærri launakröfur o.s.frv. Frakkar eru með gríðarlega mikið af erlendu vinnuafli, en þeir setja alltaf sem skilyrði að þú verðir að tala frönsku, ef þú vilt fá vinnu við þjónustustarf sem mér finnst að Íslendingar ættu líka að gera. Frakki myndi aldrei sætta sig við að þurfa að tala erlent tungumál í eigin landi þegar hann biður um máltíð á veitingastað eða herbergi á hóteli. Frakkar gera líka aðrar og meiri kurteisiskröfur í samskiptum en Íslendingar, sýna líka meiri kurteisi og gætum við þar ýmislegt af þeim lært. Íslendingar gætu líka lært af Frökkum að nýta enn betur sinn þjóðararf og þann mat sem sveitirnar og héruðin hafa upp á að bjóða. En sem betur fer hefur það breyst mikið undanfarin ár þó vissulega sé alltaf hægt að gera betur.

Hér má lesa meira um vorferð Bændaferða til Parísar og haustferðina til Bretagne.

Nýtt efni

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …