Líklegt að bílastæðin fyllist yfir páskana

Það er búist við mikilli ásókn í bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og eru flugfarþegar hvattir til að bóka sér stæði.

Bílastæði við Keflavíkurflugvöll. Mynd: Isavia

Isavia gerir ráð fyrir því að bílastæði við Keflavíkurflugvöll muni fyllast um páskana líkt og gerðist á sama tíma fyrir ári síðan. Enda ferðagleði Íslendinga á þessum tíma árs. Til að forðast það að fólk fái ekki stæði við komuna út á flugvöll hvetur Isavia farþega til að bóka
bílastæði við flugvöllinn fyrir brottför. En nýtt bókunarkerfi fyrir bílastæði á vefsíðu Keflavíkurflugvallar tryggir farþegum stæði um páskana og sömuleiðis er hægt að fá bílastæðin á betri kjörum en þegar greitt er við hlið samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Isavia.

Bókunarkerfinu var hleypt af stokkunum í febrúar og er liður í því að koma í veg fyrir að stæðin fyllist á álagstímum á flugvellinum. Lægsta sólarhringsverð yfir páskana er nú 990 krónur og því fyrr sem bókað er, því lægra verð fæst. Verð á sólarhring fyrir þá sem ekki bóka stæði og greiða við hlið er 1.750 krónur.